Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ný tillaga um staðgöngumæðrun

04.10.2011 - 15:36
Lögð hefur verið fram á ný tillaga á Alþingi um staðgöngumæðrun. Það eru tuttugu þingmenn allra flokka nema Hreyfingarinnar sem leggja tillöguna fram.

Fyrsti flutningsmaður er sem fyrr Ragnheiður Elín Árnadóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks. Eins og fram hefur komið í fréttum var samið um það rétt áður en þingi lauk í september að setja þessa tillögu til hliðar en að hún fengi þinglega meðferð nú strax við upphaf þessa þings sem sett var síðastliðinn laugardag.

Samkvæmt tillögunni verður velferðarráðherra falið að skipa starfshóp sem undirbúi frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Við þá vinnu verði meðal annars lögð áhersla á að tryggja hag og réttindi barnsins, rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar og að tryggja farsæla aðkomu hinna verðandi foreldra.

Skýrt verði kveðið á um traustan lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur við framkvæmd og eftirlit staðgöngumæðrunar. Faglegt mat og þekking, alþjóðlegar rannsóknir og reynsla annarra vestrænna þjóða verði lögð til grundvallar. Frumvarpi verði svo lagt fram sem fyrst.