Ný sýn á íslenska landslagsmálverkið?

Mynd: Þorvarður Árnason / Þorvarður Árnason

Ný sýn á íslenska landslagsmálverkið?

16.01.2018 - 17:29

Höfundar

Hefur sjónarhorn rómantískrar náttúruhyggju og rómantískrar þjóðernishyggju þrengt um of forsendur okkar til að túlka íslenska málaralist á fyrri hluta tuttugustu aldar? Hvernig væri að prófa að skoða þessi verk meira í takt við sinn tíma og jafnvel komast að raun um að hér voru á ferðinni „alvöru nútímaleg úrlausnarefni.“

Hlynur Helgason listfræðingur veltir fyrir sér tengslum íslenskra myndlistarmanna frumkvöðlakynslóðarinnar sem hófu að mála landslagsmálverk talsvert síðar en evrópskir kollegar þeirra en sóttu eigi að síður áhrif til þeirra. Er rétt að telja þá gamaldags, spyr Hlynur og svarar þeirri spurningu neitandi um leið og hann kallar eftir nýrri skoðun og þar með nýrri túlkun á þessum skeiði íslenskrar myndlistarsögu, túlkun sem standi nær þeim hugmyndum um náttúruvernd sem nú eru uppi.

Hlynur leitar leiðsagnar breska 19. aldar listfræðingsins, Johns Ruskin, sem talar um þrjú söguleg stig í landslagsmálverkinu. Í fyrsta lagi bendir hann á endurreisnarmálverkið þar sem engin sérstök áhersla er lögð á landslag heldur á mannlíf, atburði og persónur. Landslag fær stundum að vera í bakgrunnin til að styðja við hið eiginlega myndefni eins og í þessu fræga málverki Leonardos DaVinci þar sem landslagið í bakgrunninn styður við fegurð konunnar.

Mona Lisa, Leonardo DaVinci (1503)

Annað tímabilið sem John Ruskin afmarkar er tengt svokölluðu samsettu málverki og miðar við tímabilið fram að því að J.M.William Turner kemur fram á sjónarsviðið. Á þessu tímabili, allt fram til aldamótanna 1900, snúast málverk um fegurð og hughrif. Þar er raðað saman öllu því fegursta úr náttúrunni til að búa til hina fegurstu mynd og þar fór franski málarinn Claude Lorrain fremstur í flokki með margvíslegt landslag og óviðjafnanlega birtu í samræmi við inntak verksins.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Trójukonur bera eld að skipum sínum. Claude Lorrain, um 1043

John Ruskin leit á samsetta málverkið sem „ósatt“ og hvatti til þess „að menn skoði alvörulandslag, kynnist því og birti það“ og í því samhengi lítur Ruskin á Turner sem sinn meistara.  Sjálfur gerði Ruskin líka tilraun til að útfæra kenningar sínar í nokkuð kynngimögnuðum vatnslitamyndum sem hann skissaði upp á staðnum, þ.e. í Ölpunum. Myndirnar endurvann hann síðan í mörgum lögum á vinnustofu sinni.

Mynd með færslu
 Mynd: John Ruskin - Hlynur Helgason
Mer de Glace, Chamonix. John Ruskin, 1849

John Ruskin áleit Turner þann meistara, það „sjéní,“ sem best hefði tekist að birta landslag í sinni sönnu mynd.

Mynd með færslu
 Mynd: Turner - Hlynur Helgason
Mer de Glace í Chamonixdalnum. William Turner, 1803

Helsta andsvar Johns Ruskin við rómantíkinni, að mati Hlyns Helgasonar, er að ekki megi „gera náttúrunni upp mannlegar tilfinningar,“ hún sé það sem „Ruskin kallar „alien,“ eitthvað sem er  algjörlega óstrúktúrerað, órökrænt í sjálfu sér og andstæð okkur.“ Eina leiðin til að miðla náttúrunni felist í því „að reyna að skilja hana, sýna henni samúð,“ en ekki á okkar forsendum heldur á hennar eigin forsendum. Þessi afstaða felur í sér virðingu, kannski jafnvel líka ábyrgð í góðu samræmi við nútímalega afstöðu til náttúrunnar.
Þar með var komið að íslenskri hefð landslagsmálverksins.

Mynd með færslu
 Mynd: Þórarinn B. Þorláksson - Hlynur Helgason
Stórólfshvoll Eyjafjallajökull. Þórarinn B. Þorláksson (1906)

Stórólfshvoll, Eyjafjallajökull, dæmigert verk fyrir klassíska nálgun að mati Hlyns Helgasonar. Verkin unnin heima í stúdíó eftir skyssum gerðum á vettvangi. Kaflaskiptar myndir, nánast „emblematískar.“ Þetta eru hliðstæður við náttúruna, ekki náttúran sjálf.

Mynd með færslu
 Mynd: Þórarinn B. Þorláksson - Hlynur Helgason
Stórisjór. Þórarinn B. Þorláksson (1906)

Þórarinn B. Þorláksson (1867-1924) var fyrstur Íslendinga til að stunda myndlistarnám erlendis og hann var fyrstur íslenskra myndlistarmanna til að hljóta opinberan styrk til að stunda myndlist. Hlynur Helgason segir myndirnar sem Þórarinn málaði á Þingvöllum á árunum 1903-1906, vera hápunkt „hans í íslenskri og norrænni listasögu, „rómantískar stillur“,“ eins og Hlynur orðar það.

Þórarinn virðist víða leita fanga hvað fyrirmyndir varðar og stökkva fram og aftur í tímaskeiðum landslagsmálverksins eins og t.a.m. John Ruskin setur þau fram. Mynd af konu, dóttur málarans, sönn mynd full aðdáunar á viðfanginu, að mati Hlyns, og jökull sannarlega á sínum stað.

Dóttir listamannsins. Þórarinn B. Þorláksson (1918-19).

Í myndum Þórarins sem og í verkum flestra íslenskra landslagsmálara á fyrri hluta 20. aldar er jökullinn fjarlægur, jafnvel fjarrænn. Fólk er ekki að ganga á jökul, í raun er varla hægt að nálgast hann.

Síðasta myndin sem Þórarinn B. Þorláksson málaði er „einhver útgáfa af Renaissance-landslagi og jökullinn jafnvel enn fjarlægari en í fyrri myndum málarans.

Mynd með færslu
 Mynd: Þórarinn B. Þorláksson - Hlynur Helgason
Úr Laugardal. Þórarinn B. Þorláksson (1924)

Ágrímur Jónsson (1876-1958) einn sá fyrsti á Íslandi til að gera myndlist að aðalstarfi. Ásgrímur er einnig líklega ötulasti jöklamálari íslenskrar myndlistarsögu. Hann gæti hafa skoðað verk Þórarins á þeim tíma sem hann mynd sína Tindafjöll. Báðir sverja sig í klassíkina og þetta verk Ásgríms svipar til skandinavískrar landslagshefðar í málverkinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Ásgrímur Jónsson - Hlynur Helgason
Tindafjöll. Ásgrímur Jónsson (1903-1904)

Jökullinn hér sýndur sem „einhvers konar háleit sýn, landslagið eintóna flötur fremst“ og síðan „skínandi björt vatnslínan í miðjum fletinum.“ Úrvinnsla Ásgríms og miðlun á náttúru, landslagi, og þar með jöklum á hins vegar eftir að þróast mikið eins og sjá má í vatnslitaseríu sem Ásgrímur vinnur á Höfn í Hornafirði árið 1912.

Mynd með færslu
 Mynd: Ásgrímur Jónsson - Hlynur Helgason
Frá Hornafirði, Vatnajökull. Ásgrímur Jónsson (1912)
Mynd með færslu
 Mynd: Ásgrímur Jónsson - Hlynur Helgason
Stóralág í Hornafirði, Ásgrímur Jónsson (1912)

Hér skoðar Ásgrímur landslagið allt að því á eigin forsendum að mati Hlyns Helgasonar. Ásgrímur prófar margvíslegar myndlistaraðferðir og hann á eftir að fara enn lengra í tilraunum sínum með landslagið, alveg yfir í Impressionismann, „sérkennilegt þokumistur sem gæti hafa borist hingað frá Signu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ásgrímur Jónsson - Hlynur Helgason
Svínafell í Öræfum, Ásgrímur Jónsson (1912)

Íslenska landslagshefðin er einkar staðfræðileg. Það á að vera hægt að þekkja landslagið af myndinni. Turner og fleiri evrópskir og norrænir málarar skeyttu ekki mikið í slíkt.

Eftir því sem á líður þróast íslenska landslagsmálverkið, að mati Hlyns, landslagið verður landslag til að ferðast í. Oftar er landslagið þó myndhverfing þess sem ekki er hægt að nálgast. Lífið í grjótinu orðið áhugaverðara.

Mynd með færslu
 Mynd: Hlynur Helgason
Þveit í Hornafirði. Ásgrímur Jónsson (1927)

Síðar á jökullinn í íslenskum landslagsmálverkum enn eftir að fjarlægjast, verða táknmynd, form sem skiptir aðallega máli sem viðfang myndverksins. Um leið verður jökullinn að staðarmerkingu í mynd sem fjallar meira um myndbyggingu og liti eins og sjá má hjá Kristínu Jónsdóttur (1888-1959) sem var fyrst kvenna á Íslandi til að gera myndlist að ævistarfi sínu. Kristín málaði gjarna nærumhverfi sitt í Eyjafirði og varð síðar einkum þekkt fyrir kyrralífsmyndir sínar.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Jónsdóttir - Hlynur Helgason
Öræfajökull. Kristín Jónsdóttir (1937)
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Jónsdóttir - Hlynur Helgason
Snæfellsjökull. Kristín Jónsdóttir (1942)

Jón Stefánsson (1881-1962) menntaðist í myndlist bæði í Kaupmannahöfn og París og telst til fyrstu módernísku myndlistarmanna á Íslandi. Jón Stefánsson vinnur úr náttúrunni og landslaginu sem efniviði. „Formin eru skýrt dregin, litirnir einnig, algjör aðgreining með línunni um miðja myndina. Himinninn og jökullinn spegla hvorn annan.“ Hér er ákveðin upphafning á ferð, þó ekki upphafning jökulsins sem slíks, miklu fremur er um að ræða „upphafningu á hugmyndinni um landslag.“

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Stefánsson - Hlynur Helgason
Tindfjallajökull. Jón Stefánsson (um 1940)
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Stefánsson - Hlynur Helgason
Eiríksjökull. Jón Stefánsson (1920)

Að lokum skoðaði Hlynur Helgason sérkennilegustu landslagsmálarana sem þó eru hver öðrum ólíkir. Guðmundur frá Miðdal (1895-1963) var „fyrsti fjallamaðurinn sem lætur að sér kveða í íslenskri myndlist.“ Guðmundur stundaði nám hér heima og í Kaupmannahöfn sem og í München í Þýskalandi. Hann var alhliða listamaður málaði, gerði höggmyndir og leirlistaverk.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur frá Miðdal - Hlynur Helgason
Skriðjökull. Guðmundur Einarsson (1930)

Ætla má að landslagsverk Guðmundar séu samsett, skissuð á staðnum og síðan endanlega unnin og útfærð á vinnustofu. Guðmundur býður áhorfandanum í ferð nánast inn í jökulinn eins og sjá má í mynd hans af Grímsvatnagosinu.

Grímsvatnagos. Guðmundur Einarsson (1934)

Guðmundur Einarsson sem „er álitin íhaldssamur fer út í að lýsa ógnvænlegum viðburðum sem þarna eiga sér stað,“ segir Hlynur Helgason um mynd Guðmundar frá Miðdal af Grímsvatnagosinu. Einnig er athyglisvert hversu þétt Guðmundur nálgast jökulinn. Margt er enn órannsakað í landslagsverkum Guðmundar frá Miðdal, að mati Hlyns.

Mynd með færslu
 Mynd: Hlynur Helgason
Snæfellsjökull. Guðmundur Einarsson (1959)

Júlíana Sveinsdóttir (1889-1966) er einn þeirra listamanna sem notar jökulinn einvörðungu sem táknmynd, „hann er hvelfing, hann er skel í litaflæði.”

Mynd með færslu
 Mynd: Júlíana Sveinsdóttir - Hlynur Helgason
Eiríksjökull. Júlíana Sveinsdóttir (1922)

Að lokum vék Hlynur Helgason að meistara Kjarval (1885-1972) sem hann sagði oft „álitinn rómantískan en hann er allt annað en það,“ að mati Hlyns. „Kjarval skoðar hlutina vel, skoðar þá í sjálfu sér og ef hann gerir þeim upp einhverjar tilfinningar þá sýnir hann það,“ t.d. með því að „setja álf inn á myndina eða einhverjar verur.“ Þegar Kjarval nær sterkustum tengslum við landslagið „þá fer hann inn í það og sýnir okkur það eftir afar vandaða rannsókn og bindur sig ekki við að áhorfandinn þekki landslagið.“ Þennan jökul þekkja þó flestir.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Kjarval - Hlynur Helgason
Tindfjallajökull. Jóhannes Kjarval (1925)

Kjarval fer „bókstaflega ofan í jökulinn í sinn expressionísku tjáningu“, notar litinn og hreyfinguna til að sýna jökulinn á hreyfingu, í sinni allt að því ógn; „þarna er hann hrikalegur, hann er ekki „sublime,“ hann er hrikalegur,“ segir Hlynur Helgason listfræðingur.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Kjarval - Hlynur Helgason
Jökullinn. Jóhannes Kjarval (1926–7)