Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ný stjórn mynduð á Grænlandi

04.05.2018 - 18:08
Kosningaplakat Siumut í þingkosningunum á Grænlandi 2018, mynd af Kim Kielsen, formanni flokksins
 Mynd: Danmarks Radio - DR
Kim Kielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, kynnti í dag að samkomulag hefði tekist um myndun nýrrar samsteypustjórnar.  Kielsen, sem er leiðtogi jafnaðarmannaflokksins Siumut, verður áfram landsstjórnarformaður, en hefur valið að stjórna með mið- og hægriflokkunum Partii Naleraq, Atassut og Nunatta Qitornai. Partii Naleraq var í gömlu stjórninni, en sósíalistaflokkurinn Inuit Ataqatigiit (IA) hverfur úr stjórninni. 

Naumur meirihluti

Siumut og IA eru stærstu flokkarnir á þinginu í Nuuk með átta þingmenn. Þeir töpuðu þó báðir fylgi og þingsætum í þingkosningunum fyrir rúmri viku. Demókratar juku fylgi sitt mest allra flokka á milli kosninga. Þeir fengu um 20 prósent og sex þingsæti.

Knappur meirihluti

Nýja stjórnin hefur aðeins eins þingsætis meirihluta á Inatsisartut, grænlenska þinginu, 16 þingmenn á móti 15 sem verða í stjórnarandstöðu. Kielsen sagði í dag að meirihluti væri meirihluti, hann vonaðist til að samstarfið gengi vel og vildi eiga samstarf við stjórnarandstöðuna. Ekki er búið að skipta ráðherraembættum, nema ljóst er að Kielsen veitir stjórninni forystu.