Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ný stjórn endurskoðar mögulega styrkjastefnu

16.11.2019 - 19:21
Mynd: ´000 / 0´´
Síminn hefur greitt hæstu fjárhæð allra fyrirtækja í formi styrkja til stjórnmálaflokka landsins síðustu þrjú ár. Í næstu viku verður stefna stjórnarinnar, að styrkja alla flokka, mögulega endurskoðuð.

Á árunum 2016-2018 styrktu fyrirtæki og aðrir lögaðilar stjórnmálaflokkana í landinu um 170 milljónir. Hámarksstyrkur frá hverju þeirra var 400 þúsund krónur á ári á þessum tíma, en þessir sömu stjórnmálaflokkar ákváðu í fyrra að hækka það upp í 550 þúsund krónur. Um leið hækkuðu hámarksstyrkir einstaklinga úr 200 þúsund krónum í 300 þúsund.

Viðleitni til að styrkja lýðræðið

Síminn styrkti langmest allra fyrirtækja, eða um 6,4 milljónir króna. 400.000 krónur á ári í þrjú ár til allra stærstu flokkanna. Séu ársreikningarnir skoðaðir aðeins lengra aftur í tímann, sést að Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem Síminn styrkti 2014, þá 400.000. Það sama ár ákvað stjórn Símans að allir stjórnmálaflokkar sem byðu fram á landsvísu á kosningaári og föluðust eftir styrkjum, myndu fá þá. „Upprunarlega var það hugsað þannig að það væri hreinlega til að styrkja lýðræðið. Það kostar að halda úti stjórnmálastarfi,“ segir Guðmundur Jóhannsson, samskiptastjóri Símans.

Ný stjórn endurskoðar mögulega stefnuna

Guðmundur segir þessar háu fjárhæðir því meðal annars skýrast af því að kosið hefur verið æði oft undanfarin ár. „Þá eflaust er Síminn stórt fyrirtæki sem hefur lengi verið í rekstri, og eitt af þeim fyrirtækjum sem margir leita alltaf til. En svo er það spurning núna, hvort það sé tækifæri til að endurskoða þessa ákvörðun. Það er stjórnarkjör hjá Símanum í næstu viku og þá er kannski tilefni til að endurskoða þessa ákvörðun.“

Útgerðin gjöful

Ef við lítum á þau 10 fyrirtæki sem greiddu hæstu styrkina til stjórnmálaflokka trónir Síminn á toppnum. Þar á eftir koma þrjú útgerðarfélög - HB Grandi, Brim og Síldarvinnslan. Raunar eru útgerðarfélög fyrirferðamikil á þessum lista því sex af tíu fyrirækjum eru í sjávarútvegi. Önnur fyrirtæki á listanum eru verkfræðistofan Mannvit, Kvika banki og Borgun.

Magnús Geir Eyjólfsson

Tengdar fréttir