Ný ríkisstjórn tekur við

30.11.2017 - 14:50
Ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur kemur á Bessastaði nú klukkan þrjú til síns fyrsta ríkisráðsfundar og tekur þar formlega við völdum. Sex nýir ráðherrar eru í stjórninni, en af þeim hafa fjórir gegnt ráðherraembætti áður. Fréttastofa sýnir beint frá Bessastöðum hér á vefnum og í sjónvarpinu á RÚV2.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, verður forsætisráðherra í nýrri stjórn. Hún var menntamálaráðherra árin 2009 til 2013. Svandís Svavarsdóttir verður heilbrigðisráðherra flokksins. Hún var umhverfisráðherra árin 2009 til 2013. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, kemur inn sem nýr ráðherra og er eini utanþingsráðherra nýju stjórnarinnar.

Allir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins voru líka í síðustu ríkisstjórn. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður áfram í starfi iðnaðar- og ferðamálaráðherra, Sigríður Andersen verður áfram dómsmálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson verður áfram utanríkisráðherra. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flytur sig um set yfir í fjármálaráðuneytið, þar sem hann hefur raunar verið áður, og Kristján Þór Júlíusson fer úr menntamálaráðuneytinu og verður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann hefur einnig gegnt embætti heilbrigðisráðherra.

Fyrir Framsóknarflokkinn verður formaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Hann var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, umhverfisráðherra og forsætisráðherra á árunum 2013 til 2017. Lilja Alfreðsdóttir verður menntamálaráðherra. Hún gegndi starfi utanríkisráðherra frá því vorið 2016 og þar til í byrjun þessa árs. Ásmundur Einar Daðason kemur nýr inn sem ráðherra og fer í félagsmálaráðuneytið.

 

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi