Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ný ríkisstjórn tekin við í Jemen

09.11.2014 - 16:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar Jemen sóru embættiseið í dag þrátt fyrir andstöðu Alþýðufylkingarinnar, sem verið hefur við völd í landinu, og Houthi-fylkingarinnar, vopnaðra sveita síta, sem ráða lögum og lofum í höfuðborginni Sanaa.

Við athöfnina í dag voru 29 ráðherrar, þar á meðal fulltrúar Alþýðufylkingarinnar, og menn taldir vera hliðhollir Houthi-fylkingu síta. Sex voru fjarverandi og sagði Khaled Bahah forsætisráðherra að þrír þeirra væru í útlöndum, en þrír hefðu á síðustu stundu hætt við setu í stjórn.

Í gær hvatti Alþýðufylkingin væntanlega ráðherra úr flokknum að taka ekki sæti í stjórn eftir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti refsiaðgerðir gegn Abdullah Saleh, fyrrverandi forseta Jemen og leiðtoga flokksins, og tveimur leiðtogum Houthi-fylkingarinnar. Þá var Abdrabuh Mansur Hadi, forseti Jemen, rekinn úr stjórn flokksins.

Stjórnmálaskýrendur segja að ákvörðun flokksins að reka Hadi og hvetja tilnefnda fulltrúa flokksins til að taka ekki sæti í stjórn kunni að hafa alvarleg áhrif á stjórnmálaþróunina í landinu. Saleh sé að senda þau skilaboð til alþjóðasamfélagsins að hann hafi enn mikil völd í landinu og geti haft úrslitaáhrif við að tryggja þar frið og stöðugleika.