Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ný ríkisstjórn tekin við í Danmörku

03.02.2014 - 19:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Ný ríkisstjórn Jafnaðarmannaflokksins og Radikale Venstre tók formlega við völdum í Danmörku í dag. Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra hefur stokkað töluvert upp í liði sínu enda sex ráðherrar Sósíalíska þjóðarflokksins hættir vegna deilna á sölu á hlut ríkisins í orkufyrirtækinu Dong.

Thorning-Schmidt kynnti nýju stjórnina með formlegum hætti í morgun, eftir hafa gengið á fund drottningar. Erfiðleikar undanfarinna daga virðast ekki hafa sett mark sitt á forsætisráðherrann. Hún sagði þegar hún kynnti nýju stjórnina að saga stjórnarflokkanna tveggja væri samofin. Allir hlökkuðu til að vinna saman og væru sannfærðir um að þeir gætu áorkað ýmsu fyrir land og þjóð.

Tólf karlar sitja í nýju ríkisstjórninni og átta konur. Síðdegis tóku nýju ráðherrarnir við lyklavöldum í ráðuneytum sínum og skiptust um leið á gjöfum við forvera sína. Holger K. Nielsen, fráfarandi utanríkisráðherra, gaf Martin Lidegaard, eftirmanni sínum, flösku af kúbversku rommi og Annette Wilhelmsen, fyrrverandi leiðtogi Sósíalíska þjóðarflokksins, fékk jógamottu frá Manu Sareen, nýjum félagsmálaráðherra.

Hveitibrauðsdagar nýju stjórnarinnar verða líklega stuttir. Stjórnarflokkarnir hafa aðeins þriðjung sæta á danska þinginu og verða að reiða sig á að Sósíalíski þjóðarflokkurinn og Einingarlistinn verji hana falli.

Skoðanakannannir benda til að 68 prósent kjósenda séu andvíg kaupum fjárfestingabankans Goldman Sachs á nítján prósenta hlut ríkisins í Dong. Ólgan vegna þeirra viðskipta leiddi til breytinganna á ríkisstjórninni.