Ný lög myndu banna dróna á Menningarnótt

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Ný lög myndu banna dróna á Menningarnótt

23.08.2015 - 15:16

Höfundar

Að minnsta kosti sjö drónar svifu yfir Hafnarbakkanum og Arnarhóli á meðan mikill mannfjöldi fylgdist með flugeldasýningu um ellefu leytið í gærkvöld. Samkvæmt drögum að reglum um flug dróna hér á landi stendur til að banna slíkt flug nema tilskilið leyfi liggi fyrir.

Talið er að um 120 þúsund manns hafi verið í miðbænum þegar mest var. 

Fjölmargir veittu flugi drónanna, sem voru af öllum stærðum og gerðum, athygli. Nokkrir svifu yfir gestum á Arnarhóli og á Miðbakkanum - aðrir héldu sig yfir höfnina til að ná sem bestu myndum af flugeldasýningunni.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var Vodafone með einn þessara dróna - hann var notaður til að ná myndefni fyrir útsendingu RÚV af flugeldasýningunni sem fjarskiptafyrirtækið kostar. Fréttastofa hefur ekki upplýsingar um á hvaða vegum hinir sex drónarnir voru. 

Brandur Bjarnason Karlsson, formaður Flygindafélagsins, segir í samtali við fréttastofu að flestir í félaginu séu á móti því að fljúga drónum yfir slíku mannhafi. „Mönnum er illa við að fljúga yfir svona mikinn mannfjölda þar sem það er ekki komin það mikil reynsla á öryggi þessara tækja,“ segir Brandur. 

Nokkur umræða hefur farið fram um drónana á Menningarnótt á Facebook-síðu Flygildafélagsins - þar eru flestir þeirrar skoðunar að þetta hafi ekki verið ábyrgt.

Spegillinn fjallaði ítarlega um dróna í sumar og þá reglugerð sem hefur verið í smíðum um flug þeirra. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa drögin tekið einhverjum breytingum og þau eru nú til meðferðar hjá innanríkisráðuneytinu. Brandur telur þó líklegt að ákvæði um að banna flug dróna í þéttbýli og yfir miklum mannfjölda haldist inni.

Samkvæmt fyrstu drögum reglugerðarinnar var óheimilt að fljúga yfir þétta byggð nema að fengnu sérstöku leyfi og ekki mátti heldur fljúga drónum yfir svæði þar sem hópur fólks væri saman kominn - þetta ákvæði þýddi að ekki mætti fljúga drónum yfir til dæmis Reykjavík nema leyfi liggi fyrir Ef þessi reglugerð hefði verið samþykkt hefði því flug flestra dróna í gærkvöld verið bannað.

Í Speglinum kom enn fremur fram að einhverjar verslanir selji dróna hér á landi og að algengt væri að þeir væru keyptir í gegnum erlendar netverslanir. Í Elko væru í boði nokkrar tegundir - frá 5 þúsund krónum upp í 330 þúsund.  Dróni sem kostaði um 20 þúsund krónur hefur verið rifin út og í júlí var búið að selja um 150 stykki.

Brandur Bjarni segir það einmitt tilgang félagsins - að móta einhver öryggisviðmið því hver sem er geti í raun keypt sér dróna út í búð.