Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ný hús spretta upp í Dalvíkurbyggð

16.04.2019 - 09:31
Mynd með færslu
 Mynd: Börkur Þór Ottósson - RÚV
Ný hús spretta nú upp á Dalvík og eru miklar framkvæmdir í gangi á vegum sveitarfélagsins og einkaaðila. Í síðustu viku var tekin fyrsta skóflustunga að íbúðum fyrir ungt fólk með sérþarfir sem gjörbreyta aðstöðu nokkurra fjölskyldna í sveitarfélaginu.

Íbúðirnar sjö verða í tveimur húsum við Lokastíg á Dalvík, en þar verður jafnframt aðstaða fyrir skammtímavistun og þá sem þurfa sólarhringsþjónustu. „Þetta hefur náttúrulega bara gríðarlega þýðingu. Í kringum þessa einstaklinga eru náttúrulega sjö fjölskyldur sem hefðu væntanlega þurft að leita eitthvað annað ef það hefði ekki verið boðið upp á búsetuúrræði fyrir þessa einstaklinga,“ segir Börkur Þór Ottósson sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs Dalvíkurbyggðar.

Framkvæmdin er á vegum húsnæðissjálfseignarstofnunar sveitarfélagsins sem var komið á laggirnar 2017, og er byggt með stofnframlagi frá ríkinu. Heildarkostnaður er áætlaður ríflega 300 milljónir króna. 

Íbúðarhúsnæði af ýmsum toga

Gatnagerðargjöld voru felld niður í Dalvíkurbyggð 2017 sem hafði í för með sér jákvæðan hvata til nýbygginga. Fjölda lóða hefur verið úthlutað, til dæmis undir raðhús og parhús sem eru í byggingu og er ýmislegt í burðarliðnum. „Það er einn aðili búinn að fá lóð fyrir sex til átta íbúða fjölbýlishús, þannig að það er mikið að gerast,“ segir Börkur. 

Þá eru hafnarframkvæmdir sveitarfélagsins í tengslum við nýja hátæknifiskvinnslu Samherja langt komnar, auk þess sem Ungmennafélagið hefur með stuðningi sveitarfélagsins hafist handa við að leggja gervigrasvöll við íþróttamiðstöðina. „Og ég held það séu áætluð verklok núna einhvern tímann síðsumars,“ segir Börkur. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV