Nothæfar upplýsingar náðust úr flugrita

25.03.2015 - 17:52
epa04678738 German Chancellor Angela Merkel (L), French President Francois Hollande (C) and Spanish Prime Minister Mariano Rajoy (R) pay their respect to victims in front of the mountain where a Germanwings jetliner crashed, in Le Vernet, France, 25 March
 Mynd: EPA - AP POOL
Rannsóknarmenn sögðu í dag að upplýsingar hefðu náðst úr öðrum flugrita þýsku farþegavélarinnar sem fórst í Frönsku Ölpunum í gær. Verið væri að rannsaka þær. Enn er leitað að hinum flugrita vélarinnar.

Búið er að finna þann flugrita sem tók upp samtöl flugmanna í flugstjórnarklefanum. Hann var talsvert laskaður, en rannsóknarmenn sögðu á blaðamannfundi síðdegis að tekist hefði að ná úr honum nothæfum upplýsingum.

Þar sem þær hefðu náðst skömmu fyrir blaðamannafundinn hefðu þeir að svo stöddu ekki neinar skýringar á því hvað hefði gerst eða farið úrskeiðis. Þeir sögðu hins vegar útilokað að sprenging hefði orðið í vélinni.

 Vélin var af gerðinni Airbus A320 og var á leið frá Barcelona til Dusseldorf þegar hún byrjaði óvænt að lækka flugið. Veður var gott og engin neyðartilkynning barst frá flugstjóranum. Samt lækkaði vélin flugið mjög hratt í heilar átta mínútur áður en hún skall til jarðar og sundraðist.

Sá hluti flugritans sem geymir hljóðupptöku af samskiptum flugstjóra og flugmanns gæti því skipt sköpum við rannsókn málsins - ein kenningin er sú að þeir hafi báðir misst meðvitund vegna súrefnisskorts. 

Rannsóknarmen sögðust í dag vona að hinn flugritinn finndist fljótlega svo hægt væri að fá skýrari mynd að því sem gerðist.

Francois Hollande, forseti Frakklands, sagði fyrr í dag að leitinni að hinum flugritanum væri haldið áfram. Búið væri að finna hylkið utan um hann, en innihaldið vantaði.

Hollande kom í dag til bæjarins Seyne í Frönsku Ölpunum, skammt þaðan sem flugvélin fórst, ásamt Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar. Alls fórust 150 með vélinni, langflestir frá Þýskalandi og Spáni. 

Þar á meðal voru sextán ungmenni á leið heim úr skólaferðalagi ásamt tveimur kennurum. Mikil sorg ríkti við skólann þeirra í Haltern-am-See í morgun og raunar um allt Þýskaland. Kennslustundir voru felldar niður en þess í stað var haldin minningarathöfn um fórnarlömbin og vinir þeirra fengu áfallahjálp.

Fórnarlambanna var minnst víðar í Evrópu, þar á meðal við höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel og fyrir utan spænska þinghúsið.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi