Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nota sjó í baráttunni gegn svifryki

21.11.2019 - 15:53
Mynd með færslu
 Mynd: Úlla Árdal - RÚV
Akureyrarbær nýtir nú sjó í baráttunni við svifryk og til greina kemur að nota salt sem hálkuvörn í vetur, samkvæmt ráðleggingum frá heilbrigðisnefnd Norðurlands. Viðbrögð bæjarbúa við saltnotkun eru mikil og misjöfn.

Akureyrarbær nýtir nú sjó í baráttunni við svifryk samkvæmt ráðleggingum frá heilbrigðisnefnd Norðurlands. Andri Teitsson formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar segir sjóinn virka vel. Hann bindi rykið niður í marga daga og skili betri árangri en að bleyta götur með vatni.

Viðbrögð bæjarbúa við þessum aðgerðum eru mikil og misjöfn og óhætt að segja að töluverðrar óánægju gæti með þær ef marka má umræður á samfélagsmiðlum.

Upp úr hádegi myndaðist mikil hálka á Akureyri sem sumir telja tilkomna vegna aðgerðanna. Andri segir það misskilning. Það hafi ringt smávegis ofan á frosna jörð svo að þetta sé klassísk frostrigning. Hálka hafi myndast þar sem engum sjó hafi verið dreift.

Óvíst hvernig hálkuvörnum verður háttað í vetur

Í haust sagði Andri í viðtali við fréttastofu að sandur með saltblöndu yrði notaður sem hálkuvörn í vetur. „En við reiknum með að nota meira af vandaðari efnum, harðari efnum, sem brotna ekki eins mikið niður í ryk,“ segir hann. Það skili sér vonandi í minna svifryki. 

Nú hefur heilbrigðisnefnd Norðurlands hins vegar mælst til þess við Akureyrarbæ að prófað verði að nota einungis salt til hálkuvarna í vetur ásamt því að þrífa götur þegar þörf er á. 

Andri segir nauðsynlegt að þrífa göturnar því þótt einungis yrði notað salt kæmi ryk eftir öðrum leiðum og nefnir hann framkvæmdarsvæði, sót bíla og opin svæði í kringum bæinn sem dæmi. 

Hugsa þurfi fyrir mörgu því það geti skapað vandamál í niðurföllum að spúla göturnar. Þá skili það takmörkuðum árangri að sópa göturnar, auk þess sem það sé kostnaðarsamt.

Ekki sé búið að ákveða hvort áætlunum í hálkuvörnum í vetur verði breytt. Þetta verði rætt á fundum á næstu vikum. Hins vegar þurfi að taka ályktun heilbrigðisnefndarinnar alvarlega og reyna að meta málið í heild. 

Engin ein fullkomin lausn

Mögulegt sé að saltið verði notað sem hálkuvörn í vetur en umræðan sé mjög flókin. Til dæmis sé bent á að salt ýti undir að malbik leysist upp og losi þannig um meira af efnum sem geti breyst í svifryk.

Engin ein fullkomin lausn virðist vera á málinu. „Meginmarkmiðið er að geta haft hálkuvarnir en reyna að koma í veg fyrir að svifryk fari yfir heilsuverndarmörk,“ segir Andri.

Þurfi að bera saman ólíka hagsmuni

Í gegnum áratugina hafi Akureyringar verið lánsamir að þurfa ekki að nota salt á göturnar. Upplýsingar sem nú séu komnar fram sýni hins vegar hversu skaðlegt svifrykið sé. Þegar allt að sextíu ótímabær dauðsföll á Íslandi megi rekja til loftmengunar, þá verði að taka málið föstum tökum. 

Mjög heitar umræður hafa skapast í bænum. Facebook-hópurinn Ekkert salt á götur Akureyrar hefur farið á flug og hefur meðlimum fjölgað úr nokkrum hundruðum í 2.300 manns á örfáum dögum. Þar segir að tilgangur hópsins sé að „reyna að opna augu bæjaryfirvalda fyrir því að salt spillir færð og eyðileggur bíla og skófatnað“.

Andri segir margt til í því. Það þurfi hins vegar að vega bæði heilsufarshagsmuni og fjárhagslega hagsmuni bíleigenda. Bíleigendur geti líka brugðið á ýmis ráð eins og að þrífa bíla sína oftar og forðast þau svæði sem verði þá mest söltuð, sem verði líklega næst miðbænum. Þá sé hægt að nýta almenningssamgöngur betur.