Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Nota móðurmál allra í skólanum

22.08.2015 - 18:29
Déirdre Kirwan, skólastjóri frá Írlandi og  velgjörðarsendiherra tungumála hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna
 Mynd: RÚV
Árangur skólastjóra á Írlandi, sem hvatt hefur tvítyngd börni til að til að nota móðurmál sín í skólanum, hefur vakið athygli. Íslenskir skólastjórnendur og kennarar kynntu sér hugmyndir um fjöltyngi skólum á rástefnu í dag

Móðurmál, samtök um tvítyngi stóð fyrir ráðstefnunni ásamt Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur.
Í skýrslu Fjölmenningarseturs um erlenda ríkisborgara og innflytjendur sem kom út á þessu ári kemur fram að brottfall nemenda úr skóla á unglingsárum er meira meðal innflytjenda.

Renata Emilson Peskova formaður Móðurmáls, samtaka um tvítyngi segir að  þau hafi líklega ekki aflað sér nægilegrar þekkingar í íslensku til að ganga vel í bóknámi en hins vegar sé ekki gefið að það yrði svo ef meiri stuðningur væri til að byrja með á leikskóla- og grunnskólastigi.

Déirdre Kirwan, skólastjóri frá Írlandi hefur fundið leið til að snúa þessari þróun við. 300 börn eru í skólanum hennar, 80% eru tvítyngd og tala fleiri en 50 tungumál. Opinber mál skólans eru enska og írska og fer kennsla fram á þeim en kennararnir eru hvattir til að taka móðurmál nemendanna inn í skólastarfið. 

„Kennarinn spyr börnin hvort einhver viti hvernig hægt er að segja þetta á annan hátt. Þá fá börn sem tala bangla, malayalam, eistnesku eða mandarín að láta í sér heyra.“

Börnin eru hvött til að nota móðurmál sín í skólanum alla skólagönguna. Þau skipta yfir á þau þegar þau hjálpast að, leysa reikningsdæmi og ýmis önnur verkefni. 

„Og auðvitað af því þau eru hvött til að nota móðurmál sitt verður áhuginn á náminu mun meiri.“

Kervin hefur verið gerð að velgjörðarsendiherra tungumála hjá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, vegna vinnu sinnar. 

„Fjölbreytinin í samfélagi okkar er komin til að vera. Hún hverfur ekki heldur fer hún vaxandi. Það er ein afleiðingin af tækninni, með tilkomu Skype og samskiptaleiða sem ná um allan heim. Og þegar við hugsum um það á þann hátt, afhverju skyldum við ætið fara að eins og við höfum gert ef samfélagið breytist á þann hátt sem það gerir?“, spyr Déirdre Kirwan, skólastjóri frá Írlandi og velgjörðarsendiherra tungumála hjá Sameinuðu þjóðunum.