Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Norðurlönd eru fyrirmyndir í loftslagsmálum

20.08.2019 - 14:54
Mynd: RÚV / RÚV
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir að Norðurlönd séu fyrirmyndir fyrir aðrar þjóðir heimsins í loftslagsmálum. Loftslagsmál voru ofarlega á baugi á sumarfundi forsætisráðherra Norðurlanda í Viðey í dag.

Löfven var spurður eftir blaðamannafundinn í dag hvort Norðurlandaþjóðirnar gætu verið fyrirmyndir í loftslagsmálum. „Já, ég trúi því raunar að við séum það,“ sagði Löfven. Hann telur að Norðurlönd hafi margt fram að færa til loftslagsmála. Þau séu þegar fyrirmyndir hvað varðar lagasetningu og takmörkun á útblæstri.

Í gær fékk Löfven leiðsögn um Hellisheiðarvirkjun ásamt Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands. Löfven sagðist hafa verið ánægður með heimsóknina og þótti það sérstaklega áhugavert hvernig kolefni er bundið í jörðu á ný.

„Við þurfum að vinna að kolefnishlutleysi og vinna saman að boðskapnum,“ segir Löfven. Það sé alltaf hægt að gera betur.

Löfven sagði Svíþjóð ætla að beita sér fyrir þessum boðskap á fundi Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum í New York í vetur.