Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Norður-Kórea heldur áfram að þróa kjarnavopn

04.08.2018 - 02:41
epa06507663 A photo released by the North Korean Central News Agency (KCNA), the state news agency of North Korea, on 09 February 2018 shows the Hwasong-12 ballistic missile during the military parade celebrating the 70th founding anniversary of the
 Mynd: EPA-EFE - KCNA
Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa ekki hætt tilraunum sínum til að koma sér upp kjarnavopnum og þróa langdrægar eldflaugar. Auk þess hafa þau notið aðstoðar sýrlensks vopnasala við að selja vopn til Jemen og Líbýu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna.

Refsiaðgerðir hafa litlu skilað og eru að mestu „gagnslausar“ að mati sérfræðinganna sem afhentu öryggisráðinu 62 blaðsíðna skýrslu um málið.

Norður-Kóreumenn halda áfram að flytja ólöglega út kol, járn, sjávarfang og vopn sem skilar stjórnvöldum þar mörgum milljónum dollara í tekjur. Kol og járn er að stærstum hluta flutt til Kína og Indlands.

Yfirvöld í Pyongyang hafa „stóraukið“ við ólöglega olíuflutninga til landsins, sem eru brot á refsiaðgerðum gegn landinu vegna kjarnavopnaáætlunar þess. Olía er færð úr erlendum olíuskipum í norður-kóresk á hafi úti og síðan er olían flutt til hafnar í Norður-Kóreu. Um 40 skip og 130 fyrirtæki taka þátt í þessum flutningum.

Auk þess hafa stjórnvöld í Norður-Kóreu notið aðstoðar sýrlenska vopnasalans Hussein Al-Ali við að selja vopn til vígamanna í Líbýu, Jemen og Súdan. Hann var milligöngumaður um vopnasölusamning milli Norður-Kóreu og uppreisnarhópa Húta í Jemen sem undirritaður var í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, árið 2016 að því segir í skýrslunni. Slíkt er brot á vopnasölubanni sem Sameinuðu þjóðirnar settu á Norður-Kóreu.

Samkvæmt skýrslunni hafa norður-kóreskir diplómatar opnað fjöldamarga bankareikninga víða um heim til að komast hjá refsiaðgerðum og banni við því að ríki heims stundi rekstur í samstarfi við Norður-Kóreu. Sérfræðingarnir fundu um 200 slík fyrirtæki sem mörg hver starfa í byggingariðnaði í Rússlandi.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti því yfir í aðdraganda fundar ASEAN-ríkjanna í Singapúr að ríki heims þyrftu að halda áfram að beita diplómatískum og efnahagslegum þrýstingi gegn Norður-Kóreu.

epa05998786 An undated photo made available by the North Korean Central News Agency (KCNA), the state news agency of North Korea, shows the test-fire of a ballistic rocket equipped with precision guidance system, at an undisclosed location in North Korea
Norður-Kóreumenn skjóta á loft flugskeyti, sem sagt var geta borið kjarnaodd. Mynd: EPA - KCNA
Norður-Kóreumenn prófa eldflaugar.