Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Norðmenn mega lasta guð

06.05.2015 - 05:31
epa04558607 French satirical magazine 'Charlie Hebdo' caricaturist Rénald Luzier, better known as Luz raises the magazine's latest edition as he speaks during a press conference at the Liberation newspaper headquarters, in Paris, France, 13
Árásin á Charlie Hebdo ýtti við norskum og íslenskum þingmönnum. Norðmenn hafa nú afnumið guðlastsgrein refsilöggjafarinnar en frumvarp Pírata sama efnis bíður enn afgreiðslu Alþingis. Mynd: EPA
Norðmenn geta frá og með deginum í dag lastað hverja þá guði og gyðjur sem þeim sýnist án þess að eiga yfir höfði sér ákærur eða refsingar af hálfu hins opinbera. Í gær samþykkti norska stórþingið endanlega breytingar á refsilöggjöfinni sem fólu í sér að grein 142 var felld úr lögunum.

Í henni var kveðið á um að hver sá sem með orðum sínum eða gjörðum hæddi eða lítilsvirti trúarkenningar eða guðsdýrkun annarra mætti eiga von á sektum eða allt að sex mánaða fangelsisdómi. Sex ár eru síðan fyrst var samþykkt að fella þessa lagagrein úr gildi, en nýja refsilöggjöfin var aldrei fullgilt fyrr en nú. Dómsmálaráðherra Noregs, Anders Anundsen, lofaði því í fyrra að guðlasts-greinin yrði endanlega felld úr norskri refsilöggjöf nú í sumar, en eftir árásina á franska skopmyndaritið Charlie Hebdo í janúar þótti tveimur þingmönnum ástæða til að mæla fyrir því að málið fengi flýtimeðferð, og gekk það eftir.

 

Píratar lögðu í janúar fram frumvarp til laga um að 125. grein verði felld brott úr almennum hegningarlögum  hér á landi, en samkvæmt henni geta sektir eða allt að þriggja mánaða fangelsisdómur legið við opinberu guðlasti. Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, hefur lýst stuðningi við að frumvarpið verði að lögum.