Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Norðlendingar undirbúa stofnun nýs flugfélags

10.02.2020 - 07:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd með færslu
Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur.  Mynd:
Hópur fjárfesta skoðar nú möguleikann á því að stofna nýtt flugfélag til þess að koma á reglubundnu áætlunarflugi milli Akureyrar og Evrópu. N-Ice Air er heiti verkefnisins, en niðurstaða fýsileikakönnunar á að liggja fyrir í apríl.

Frá þessu er greint bæði í Morgunblaðinu og í Fréttablaðinu í dag. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Circle Air, er einn þeirra sem kemur að verkefninu en helstu bakhjarlar eru Samherji, Höldur og Norlandair. Þá fékk verkefnið 3,5 milljónir króna í styrk úr uppbyggingarsjóði Sóknaráætlunar Norðurlands eystra.

Þorvaldur segir í blöðunum að íbúar á Norður- og Austurlandi séu orðnir þreyttir á þeim kostnaði sem fylgir því að fljúga erlendis um Keflavíkurflugvöll. Því fylgi aukinn kostnaður með langri keyrslu að heiman auk þess sem taka þarf oft aukafrídaga og kaupa gistingu fyrir sunnan.

Akureyrarflugvöllur er helsta hindrun verkefnisins að sögn Þorvaldar, þar sem nauðsynlegt er að fjárfesta í uppbyggingu. Ekki var gert ráð fyrir því í samgönguáætlun. Þá segir hann koma til greina að fá aðra til þess að annast flugið í upphafi til þess að prófa flugleiðina og kanna eftirspurn, áður en hið nýja flugfélag tæki við.