Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nokkrir stormasamir dagar í lífi Boris Johnson

04.10.2019 - 07:05
Erlent · Boris Johnson · Bretaland · Brexit · ESB · Stjórnmál
epa07888738 Britain's Prime Minister Boris Johnson delivers his keynote speech at the Conservative Party Conference in Manchester, Britain, 02 October 2019. The Conservative Party Conference runs from 29 September to 02 October 2019. EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Boris Johnson hefur verið falið að koma Bretlandi úr Evrópusambandinu fyrir 31. október, með eða án samnings við sambandið, með góðu eða illu. Verkefni sem Theresa May var kosin til en mistókst. Hingað til hefur gengið brösuglega og ýmislegt gengið á þrátt fyrir stutta stjórnartíð Johnsons.

Stöðuna í breskum stjórnmálum, má rekja til sögulegrar þjóðaratkvæðagreiðslu 23. júní 2016. Þá gengu yfir þrjátíu milljónir Breta að kjörborðinu og sautján og hálf milljón kallaði eftir útgöngu úr Evrópusambandinu, eða 52%. Boris Johnson var einn helsti tals- og baráttumaður Brexit.

En hvað hefur nákvæmlega gengið á og hvað felur framtíðin í sér?

 • 7. júní 2019
   

  May hættir

  Theresa May þáverandi forsætisráðherra hætti formlega sem leiðtogi Íhaldsflokksins. Tíu þingmenn flokksins buðu sig fram sem næsta leiðtoga og þar með næsta forsætisráðherra Bretlands. Þar á meðal Boris Johnson.

 •  
   

  Júlí

 • 23.júlí 2019
   

  Boris byrjar

  Þennan dag var Boris Johnson var kjörinn leiðtogi Íhaldsflokksins og tók við forsætisráðuneytinu af Theresu May. Við lokaumferð stóð valið milli Boris Johnsons og Jeremys Hunts þáverandi utanríkisráðherra. Johnson sigraði örugglega og hlaut 66% atkvæða en Hunt 34%. Hunt hætti daginn eftir í kjölfar þess að Johnson bauð honum valdaminna embætti.

  Boris Johnson hafði áður sagt að það væru álíka miklar líkur á því að hann yrði forsætisráðherra Bretlands og að finna Elvis Presley á Mars eða að hann myndi endurholdgast sem ólífa.

  Theresa May lýsti strax yfir stuðningi við Johnson og sagði að nú yrði flokkurinn að sameinast um að ljúka við Brexit.

  Meðal annarra sem óskuðu Johnson til hamingju með sigurinn var Donald Trump forseti Bandaríkjanna. „Hann verður frábær,“ skrifaði Trump á Twitter-síðu sína.

  Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra var einnig í hópi þeirra sem óskuðu Johnson til hamingju með nýja embættið.

 • 24. júlí 2019
   

  Boris stokkar upp í ríkisstjórninn

  Boris Johnson tók við forsætisráðherraembættinu af Theresu May og stokkaði rækilega upp í ríkisstjórninni. Fáir héldu embætti sínu við forsætisráðherraskiptin. Þá hættu á annan tug ráðherra í stjórninni í kjölfar þess að Johnson tók við embættinu og fleiri hafa síðan bæst í hópinn.

  Boris Johnson sagðist fullviss um að hann væri rétti maðurinn til þess að höggva á Brexit-hnútinn og lofaði að Bretar gengju úr Evrópusambandinu 31. október, án efa.

 • 25. júlí 2019
   

  Boris leggur línurnar

  Johnson hélt fyrsta ríkisstjórnarfund sinn í Downingstræti. Hann lagði línurnar fyrir það sem koma skyldi í fyrstu ræðu sinni í breska þinginu og sagði að undirbúningur fyrir mögulegan viðskilnað Breta við Evrópusambandið án viðskiptasamnings hefði algjöran forgang.

  Hann sagði að fullur vilji væri til að ná útgöngusamningi en ekki væri hægt að fallast á núverandi samning, sérstaklega hvað varðaði landamæri Írlands og Norður-Írlands.

 •  
   

  Ágúst

 • 28. ágúst 2019
   

  Þinghlé

  Boris Johnson ákvað að lengja þinghlé í kjölfar landsfunda stóru flokkanna þriggja fram í miðjan október, um hálfum mánuði fyrir áætlaða útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þing kæmi þá ekki saman fyrr en 14. október, þremur dögum áður en Bretar eiga að sitja leiðtogafund Evrópusambandsins í síðasta sinn.

  Stjórnarandstæðingar fordæmdu áformin. Með þessu gæfist afar lítill tími til að hindra samningslaust Brexit.

 • 29. ágúst 2019
   

  Allt leikur á reiðiskjálfi

  Eftir ákvörðun forsætisráðherra um að lengja hlé á þingstörfum lék allt á reiðiskjálfi í breskum stjórnmálum og landinu öllu. Yfir ein og hálf milljón skrifaði undir bænaskjal gegn ákvörðun forsætisráðherrans á um þremur dögum. Þá héldu tugþúsundir út á götur breskra borga til að lýsa óánægju sinni með ákvörðun Johnsons.

 •  
   

  September

 • 2. september 2019
   

  Kosningar?

  Fram kom að forsætisráðherrann væri reiðubúinn að boða til kosninga 14. október ef þingið myndi setja honum skorður og útiloka útgöngu Breta úr Evrópusambandinu án samnings, líkt og stefnt var að.

 • 3. september 2019
   

  Meirihlutinn farinn

  Boris Johnson missti meirihlutann á breska þinginu þegar Phillip Lee, þingmaður Íhaldsflokksins, stóð upp úr sæti sínu og gekk bókstaflega til liðs við Frjálslynda demókrata í stjórnarandstöðunni, í miðri ræðu forsætisráðherrans. Hann sagði að ríkisstjórnin stofnaði heiðri Bretlands í hættu og græfi undan efnahag og lýðræði landsins.

  Annað áfall dagsins var þegar þingmenn samþykktu að taka dagskrá þingsins í sínar hendur. Fyrsta atkvæðagreiðsla þingsins eftir að Johnson tók við embætti var því mikill ósigur fyrir hann.

  Þeim Tuttugu og einum þingmanni Íhaldsflokksins sem greiddi atkvæði með tillögu stjórnarandstöðunnar var vikið úr flokknum, þar á meðal barnabarni Winstons Churchills sem var forsætisráðherra í seinni heimsstyrjöldinni og aftur nokkrum árum síðar.

 • 4. september 2019
   

  Engar kosningar

  Daginn eftir að þingið tók dagskrána í sínar hendur var lögð fram tillaga um að forsætisráðherra yrði að fara fram á frest á Brexit við Evrópusambandið, næðust ekki samningar fyrir 19. október. Með tillögunni yrði komið í veg fyrir samningslaust Brexit. Tillagan var samþykkt í neðri málstofu þingsins.

  Boris Johnson neyddist því til að standa við stóru orðin og efna til atkvæðagreiðslu um hvort boðað skyldi til þingkosninga 15. október. Þingið hafnaði tillögunni.

 • 5. september 2019
   

  „Myndi frekar vilja vera dauður í skurði“

  Daginn eftir að tillaga þingsins var samþykkt í neðri málstofunni ýjaði Johnson að því að hann myndi ekki fara til Brussel að biðja ráðamenn Evrópusambandsins um aukinn frest til að ná samkomulagi um útgönguna.

  „Ég myndi frekar vilja vera dauður í skurði,“ sagði hann. „Af hverju í ösköpunum ættum við að bíða lengur? Það er algjörlega tilgangslaust,“ sagði Johnson um frestun Brexit.

 • 6. september 2019
   

  Lávarðadeildin samþykkir lögin

  Lávarðadeild breska þingsins samþykkti lögin. Þeim er ætlað að koma í veg fyrir að Bretar geti farið úr Evrópusambandinu án samnings og því verður forsætisráðherra að sækja um þriggja mánaða frest á útgöngu, takist ekki að semja við sambandið fyrir nítjánda október. Þetta var því enn einn ósigurinn í stuttri stjórnartíð Johnsons.

 • 9. september 2019
   

  Boris þarf að fá frestun

  Loks varð tillagan að lögum og því slegið föstu að forsætisráðherrann verði að fara fram á frestun.

  Þennan sama dag gerði hann aðra tilraun til að fá breska þingið til að samþykkja þingkosningar 15. október, áður en Bretar eiga að ganga úr Evrópusambandinu. Tillögunni var aftur hafnað.

  Síðar um daginn var gert hlé á þingstörfum sem standa átti fram til 14. október samkvæmt ákvörðun Johnsons. Sú ákvörðun rataði að endingu fyrir hæstarétt eftir að reynt hafði á hana fyrir skoskum og enskum dómstólum.

  Líkt og sjá má var dagurinn Boris Johnson bæði viðburðaríkur og erfiður. Það sem svo kórónaði kannski kvöldið var að síðla dags samþykkti þingið kröfu um að öll skjöl um ráðstafanir ríkisstjórnar Johnsons fyrir samningslausa útgöngu úr Evrópusambandinu yrðu gerð opinber auk samskipta ýmissa starfsmanna forsætisráðuneytisins í aðdraganda þinghlésins. Margt benti til þess að þar hefði ríkisstjórnin ekki komið heiðarlega fram.

 • 14. september 2019
   

  Öruggur um að landa samningi

  Boris Johnson sagði að mikill árangur hefði náðst í Brexit-viðræðum við Evrópusambandið. Þó viðurkenndi hann að margt væri ógert fram að 17. október þegar síðasti leiðtogafundur Evrópusambandsríkja, fyrir áætlaða úrgöngu Breta verður haldinn. Hann sagðist staðráðinn í að koma frá þeim fundi með samning og kvaðst öruggur um að landa honum ellegar færu Bretar úr sambandinu 31. október.

 • 15. september 2019
   

  Kannast ekki við árangurinn

  Forsvarsmenn Evrópusambandsins könnuðust ekki við að mikill árangur hefði náðst í viðræðum við bresk stjórnvöld um Brexit. Varla væri hægt að tala um viðræður og enn væri mjög langt í land. Ummæli breska forsætisráðherrans bentu til þess að hann tæki verkefnið ekki alvarlega þrátt fyrir að Brexit án samkomulags gæti haft alvarlegar afleiðingar.

 • 16. september 2019
   

  Brexit-andstæðingar fældu Johnson

  Boris Johnson átti fund með Xavier Bettel forsætisráðherra Lúxemborgar og Jean-Claude Juncker forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hópur Brexit-andstæðinga gerði hrópa að Johnson og sagði honum að skammast sín og í kjölfar þess afþakkaði hann að taka þátt í fréttamannafundi með forsætisráðherra Lúxemborgar sem fór fram utan dyra í borginni.

 • 24. september 2019
   

  Hæstiréttur: Ákvörðun forsætisráðherrans ólögmæt

  Bresku hæstaréttardómararnir ellefu töldu að ákvörðun forsætisráðherra, um að gera hlé á störfum breska þingins í fimm vikur rétt fyrir úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, væri ólögmæt. Ákvörðunin hefði gert það að verkum að þingið gat ekki sinnt lögbundnum skyldum sínum. Í úrskurðinum sagði að þingið ætti að starfa áfram líkt og ekkert hefði í skorist.

  John Bercow þingforseti kallaði þingheim þá saman á ný og fjöldi fólks krafðist afsagnar forsætisráðherrans. Johnson lét sér fátt um finnast og sagðist einfaldlega vera ósammála dómurum hæstaréttar.

 • 28. september 2019
   

  Íhuga vantrauststillögu

  Þingmenn stjórnarandstöðuflokka á breska þinginu íhuguðu að leggja fram vantrauststillögu á forsætisráðherrann á næstu dögum. Aðeins þannig væri hægt að koma í veg fyrir útgöngu. Mögulega verður þá leiðtogi Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, forsætisráðherra til bráðabirgða.

 • 29. september 2019
   

  Ætlar ekki að segja af sér

  Boris Johnson sagðist ekki ætla að segja af sér embætti til að koma í veg fyrir að þurfa að biðja um aukinn frest fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

 •  
   

  Október

 • 1. október 2019
   

   

 • 2. október 2019
   

  Drífum Brexit áfram

  Drífum Brexit af var vissulega leiðarstef í ræðu Johnsons á fundi íhaldsflokksins í Manchester í gær. Þar kynnti hann helstu atriðin í „lokatilboði“ sínu til Evrópusambandsins og sagði að yrði það ekki samþykkt í Brussel, gengi Bretland úr sambandinu án samnings. Áhöld eru um hvort nýju lögin sem breska þingið setti duga til að ónýta þá fyrirætlan forsætisráðherrans.

  Lokatilboðið miðar að því að leysa stærsta ásteytingarsteininn í útgöngusamningnum sem snýr að landamærum Norður-Írlands.

 • 3. október 2019
   

  Vill annað þinghlé

  Greint var frá því snemma morguns að nú, innan við viku frá dómi Hæstaréttar, hyggist Johnson fara fram á að Bretadrottning slíti þingi öðru sinni á skömmum tíma og sendi þingmenn til síns heima. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu er talað um að vilji standi til þess að þingi verði slitið eftir fimm daga og kallað saman á ný fjórtánda október, líkt og forsætisráðherrann hafði upphaflega boðað.

  Í dag lagði Johnson nýja Brexit-samninginn sinn, sem hann kallar „lokatilboð“ sitt um lausn á deilunni, fyrir neðri deild breska þingsins við misgóðar undirtektir. Þá sagðist Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, vera ósannfærður af lokatilboðinu.

 •  
   

  Hvað næst?

 • 14. október 2019
   

  Þing kemur saman á ný?

  Fái Johnson þinginu slitið að nýju kemur það aftur saman þennan dag og hlýðir á stefnuræðu ríkisstjórnarinnar.

 • 17. október 2019
   

  Síðasti leiðtogafundurinn?

  Síðasti leiðtogafundur Evrópusambandsríkja áður en Bretar ætla út úr sambandinu. Boris Johnson hefur ítrekað sagst fullviss um og staðráðinn í að koma af fundinum með samning.

  Annað hljóð hefur verið í forsvarsmönnum Evrópusambandsins sem segja að lítill árangur hafi náðst í viðræðum við bresk stjórnvöld. Engar raunhæfar tillögur hafi komið fram af hálfu forsætisráðherrans.

 • 19. október 2019
   

  Biður Johnson um frest?

  Þennan dag á breski forsætisráðherrann að fara fram á það við Evrópusambandið að útgöngu Breta verði frestað um þrjá mánuði hafi samningar ekki náðst, samkvæmt lögum breska þingsins. Það verður þá í þriðja sinn sem Bretar fá útgöngufrest.

  Margt getur gerst þennan dag:

  • Verði lokatilboð Johnsons samþykkt í breska þinginu á næstu dögum hyggst hann halda til úrslitaviðræðna við leiðtoga Evrópusambandsins þennan dag. Samþykki þeir ekki tilboðið segir hann að Bretar gangi úr Evrópusambandinu án samnings 31. október.
  • Samþykki breska þingið hins vegar ekki lokatilboð Johnsons, Brexit-samning hans, er erfitt að segja til um hvað gerist. Hann hefur sagst frekar vilja liggja dauður í skurði en fara fram á frest og ýjað að því að hann ætli að láta reyna á gildi nýju laganna.
  • Óvíst er hvað gerist þá. Greint hefur verið frá því að fjöldi þingmanna hafi um nokkurt skeið unnið að málsókn, neiti forsætisráðherrann að sækja um frest á útgöngunni. Þá hefur John Bercow, forseti breska þingsins, sagt að ef ríkisstjórnin reynir að óhlýðnast lögum eigi þingið eftir að reyna að koma í veg fyrir það, jafnvel með valdi.
 • 31. október 2019
   

  BREXIT

  Þennan dag eiga Bretar að ganga úr Evrópusambandinu, með eða án samnings, fari þeir ekki fram á eða fái frest.

Boris borinn ásökunum

Ýmislegt fleira hefur gengið á í stuttri stjórnartíð Boris Johnsons og hefur hann þurft að svara fyrir ýmsar ásakanir. 

 • Meðan á baráttunni um formannshlutverk Íhaldsflokksins stóð var lögregla kölluð á að heimili Johnsons. Nágrannar höfðu tilkynnt háreysti, öskur og læti og sögðust óttast um velferð Carrie Symonds, sambýliskonu hans. Lögreglan sagði að ekki hefði verið tilefni til lögregluaðgerða á vettvangi og að engin skýrsla um heimilisofbeldi væri á skrá.
 • Borgaryfirvöld í Lundúnum vilja að embættisfærslur Johnsons sem borgarstjóra verði rannsakaðar  og lögregla kannar hvort tilefni er til rannsóknar. Hann á að hafa veitt bandarískri viðskiptakonu, Jennifer Acuri, styrki á vegum borgarinnar og boðið henni að taka þátt í viðskiptaferðum hans erlendis. Johnson hefur neitað því að hafa gert nokkuð rangt. 
Mynd með færslu
Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands. Mynd: EPA
 • Charlotte Edwardes, blaðamaður The Sunday Times, sakaði forsætisráðherrann um að hafa gripið ofarlega um innanvert læri hennar í hádegisverði fyrir tíu árum þegar hann var ritstjóri tímaritsins Spectator. Önnur kona hafði sömu sögu að segja. Talsmaður frá forsætisráðuneytinu sagði ásakanirnar ósannar. 
 • Johnson hefur legið undir ámæli í þinginu fyrir framkomu sína á opinberum vettvangi og ásökunum um að orðræða hans í garð stjórnarandstæðinga sé hættuleg. Mörgum þingmönnum hafi borist morðhótanir þar sem höfð eru eftir ókvæðisorð Johnsons. Hann kveðst aldrei hafa heyrt annað eins kjaftæði. 
 • Þá supu þingmenn hveljur þegar Johnson sagði að best væri að heiðra minningu Jo Cox, þingkonu Verkamannaflokksins sem hægrisinnaður öfgamaður myrti í aðdraganda Brexit þjóðaratkvæðagreiðslunnar, með því að drífa Brexit í gegn. Ummælin vöktu mikla reiði jafnt innan sem utan breska þingsins.
An image and floral tributes for Jo Cox, lay on Parliament Square, outside the House of Parliament in London, Friday, June 17, 2016, after the 41-year-old British Member of Parliament was fatally injured Thursday in northern England. The mother of two
Minningarreitur um Jo Cox. Mynd: AP

Hvernig fer fyrir Bretlandi og Boris Johnson?

Erfitt er að reyna að segja til um hvernig fer fyrir Boris Johnson og Bretlandi. Ef marka má lífseig ummæli forsætisráðherrans stendur enn til að Bretland fari úr Evrópusambandinu 31. október, með eða án samnings. 
Samningslausir yrðu Bretar utan tollabandalagsins og viðskiptasambandsins sem Evrópusambandið hefur byggt upp. Margir stjórnmálamenn og fólk í fjármálageiranum segja að það geti stórskaðað breskan efnahag, en aðrir segja að of mikið sé gert úr því. 

Í Yellowhammer-skýrslunni, skýrslu stjórnvalda sem Boris Johnson neyddist til að opinbera, kemur fram að ringulreið, umferðaröngþveiti, hærra verð á matvöru og eldsneyti er meðal þess sem stjórnvöld óttast, gangi Bretland úr Evrópusambandinu án samnings.
 

Mynd með færslu
 Mynd:

Nái Johnson hins vegar samningi við Evrópusambandið, getur verið að hann fái að kynnast þrengingum forvera síns. Samningur May féll hvorki í kramið hjá Brexit-sinnum né Evrópusinnuðum þingmönnum, sem felldu hann þrisvar. Þingheimur er þó kannski orðinn þreyttur á Brexit-og samningsfúsari en áður. Það er þó ekki á vísan að róa. 

Biðji Bretar um og fái þriðja frestinn fjölgar möguleikunum og afdrif landsins og landsmanna verða enn óljósari. Stjórnarandstæðingar hafa til að mynda sagst vilja boða til þingkosninga eftir að frestur hefur verið veittur.
 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia - EPA

Afdrif forsætisráðherrans óljós

Það á eftir að koma í ljós hvort fréttir af einkalífi Boris Johnsons hafa áhrif á kjósendur. Auk þess hefur Boris hann tapað öllum atkvæðagreiðslum í þinginu, tapað í hæstarétti, misst eða rekið yfir tuttugu þingmenn og glatað naumum þingmeirihlutanum sem hann erfði eftir Theresu May. Þá er enn möguleiki á því að þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna leggi fram vantrauststillögu á forsætisráðherrann. 

Hins vegar stendur Boris Johnson vel í skoðanakönnunum, þrátt fyrir að ýmislegt bjáti á. Þá er spurning hvort taktík hans tryggir honum sigur í komandi kosningum, – þegar stjórnarandstöðunni þóknast.