Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Nokkrar götur breyta um nafn

10.10.2012 - 20:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjórar götur í Túnunum í Reykjavík hafa fengið ný nöfn eftir þeim konum sem fyrstar settust í bæjarstjórn í Reykjavík. Ekki eru allir ánægðir með sín nýju heimilisföng.

Starfsmenn borgarinnar hengdu í morgun upp ný götuskilti í Túnunum. Þau gömlu munu þó hanga áfram uppi til ársins 2014 svo vegfarendur hafi góðan tíma til að venjast breytingunum. Nýju nöfnin eru sótt til þeirra fjögurra kvenna sem fyrstar settust í bæjarstjórn í Reykjavík árið 1908. Nú heitir Sætún Guðrúnartún eftir Guðrúnu Björnsdóttur, Höfðatún heitir Katrínartún eftir Katrínu Magnússon, Skúlatún heitir Þórunnartún eftir Þórunni Jónassen og Skúlagata, austan Snorrabrautar, verður Bríetartún eftir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur.

Íbúar við Skúlagötu þurfa ekki aðeins að venjast nýju götuheiti, Bríetartúni, því þar breytast húsnúmerin líka. Þeir sem búa til dæmis á Skúlagötu 52 eiga eftir breytingarnar heima í Bríetartúni 6.

Sigurður Þór Guðjónsson, íbúi í hverfinu, er óánægður með breytinguna. “Mér finnst að það hefði átt að sleppa Skúlagötunni í þessu dæmi vegna þess að það býr svo margt fólk þar,“ segir hann, „og þegar fólk hefur búið kannski áratugum saman á sama stað þá finnst því svona róttæk breyting, bæði heiti og húsnúmer, vera eins og það sé verið að ráðskast með heimili þess. Mér finnst þeir hefðu átt að hugsa um þetta, borgarráðsmenn.“

Borgin mætir þörfum íbúanna með því að annast og kosta breytingar í símaskrá, þjóðskrá og þessháttar. Sigurður hefði hins vegar viljað sjá meira samráð við fólkið í hverfinu. „Þeir hefðu mátt sýna lágmarks virðingu og tillitssemi við íbúana finnst mér.“