Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nóbelsverðlaun vekja undrun og reiði

epa07910651 Austrian writer Peter Handke poses for photographs at his home in Chaville, near Paris, France, 10 October 2019. The Nobel Prize in Literature for 2019 is awarded to Peter Handke, the Swedish Academy announced on 10 October 2019.  EPA-EFE/JULIEN DE ROSA
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Nóbelsverðlaun vekja undrun og reiði

15.10.2019 - 13:12

Höfundar

Margir spáðu því að sænska akademían myndi forðast það að deilt yrði um Nóbelsverðlaunin í ár en raunin hefur orðið allt önnur. Álitsgjafar eru furðu lostnir yfir því að Peter Handke hafi hlotið verðlaunin en hann hefur verið sakaður um að bera blak af stríðsglæpum Serba í Kósóvóstríðinu.

Peter Handke, sem til stendur að taki á móti Nóbelsverðlaunum í bókmenntum með viðhöfn í desember, sagði sjálfur eitt sinn að verðlaunin væru marklaus og kallaði eftir því árið 2014 að þau yrðu lögð niður. Það kom honum því sannarlega á óvart þegar tilkynnt var á fimmtudag að hann væri annar tveggja rithöfunda til að fá þau í ár. „Ég hélt að þau myndu aldrei velja mig,“ sagði hann við við blaðamenn fyrir utan heimili sitt í París eftir að sænska akademían kynnti val sitt. „Ákvörðun hennar er til marks um mikið hugrekki. Þetta er gott fólk,“ sagði Handke – en ekki eru allir á því að hið sama sé hægt segja um hann.

Valið hefur reynst mjög umdeilt og er það einkum vegna opinberrar framgöngu hans í tengslum við Kósóvóstríðið. Peter Handke hélt upp vörnum fyrir serbneska einræðisherrann Slobodan Milošević meðan Kósóvóstríðið stóð yfir. Í bók sem Handke gaf út árið 1996, og hét Réttlæti fyrir Serbíu, sakaði hann vestræna fjölmiðla um að draga upp ósanngjarna mynd af Serbum í umfjöllun um stríðið og neitaði því að herfylkingar Bosníu-Serba hefðu gerst sekar um þjóðarmorð í Srebrenica árið 1995 þar sem 8.000 karlmenn og drengir voru teknir af lífi. Handke heimsótti Milošević meðan réttað var yfir honum vegna stríðsglæpa fyrir alþjóðadómstólnum í Haag og vefengdi réttmæti þeirra opinberlega meðan þau stóðu yfir. Slobodan Milošević lést áður en dómstóllinn komst að niðurstöðu 2006 og flutti Handke minningarræðu við útför hans.

epa07909720 (FILE) - Austrian novelist Peter Handke prior to an interview at the Metro cinema in Vienna, Austria, 16 October 2014 (reissued 10 October 2019). The Nobel Prize in Literature for 2019 is awarded to Handke, the Swedish Academy announced on 10 October 2019.  EPA-EFE/GEORG HOCHMUTH  AUSTRIA OUT
 Mynd: EPA-EFE - APA
Val sænsku akademíunnar á austurríska rithöfundinum Peter Handke hefur reynst mjög umdeilt.

Handke átti að hljóta Heinrich Heine-bókmenntaverðlaunin sama ár og útför Milošević fór fram. Var mikið deilt um tilnefninguna vegna stjórnmálaskoðana hans og afþakkaði Handke því verðlaunin. Því var einnig mótmælt þegar hann vann hin alþjóðlegu Ibsen-verðlaun árið 2014. Í gær fóru fram mótmæli við sænska sendiráðið í Pristina höfuðborg Kosovo. Þar krefjast mótmælendur að Handke verði sviptur Nóbelsverðlaununum.

Ákvörðun sænsku akademíunnar hefur verið gagnrýnd og vakið mikla reiði. Margir bjuggust við því að hún myndi forðast það í lengstu lög að valda styr um verðlaunin eftir allt sem á undan er gengið. Félagi í akademíunni, Ole Andersson, sagði fyrir skemmstu að viðmiðum akademíunnar hefði verið sérstaklega breytt til að vinna á slagsíðu verðlaunanna, þar sem einkum evrópskir karlmenn hefðu fengið þau síðan til þeirra var stofnað. Olga Tokarczuk varð fimmtánda konan, af alls 116 verðlaunahöfum, til að fá þau en hjá því verður ekki litið að bæði eru þau evrópsk. Dr. Helen Finch, við þýskudeild Háskólans í Leeds, sagði að verðlaunin í ár sýni að akademían sé enn yfir sig hrifin af hvítum evrópskum karlmönnum og skjóti skollaeyrum við pólitískri samsekt þeirra.

Bandaríski rithöfundurinn Jennifer Egan, sem er í forsvari fyrir málfrelsissamtökin PEN í Bandaríkjunum, sagði fólk í samtökunum orðlaust af undrun. Handke sé höfundur sem hafi nýtt sviðsljósið til að grafa undan sagnfræðilegum staðreyndum og hlaupið undir bagga með stríðsglæpamönnum. „Við höfnum því að ákveðið hafi verið að hampa höfundi sem hefur þráfaldlega vefengt vel skrásetta stríðsglæpi,“ segir Egan í tilkynningu fyrir hönd samtakanna. „Bókmenntasamfélagið á betra skilið á tímum þar sem falskar upplýsingar ná útbreiðslu og einræðisvaldi og þjóðernishyggju vaxi ásmegin. Við hörmum ákvörðun Nóbelsakademíunnar mjög.“

Í leiðara The Times segir að sænska akademían hafi kallað yfir sig skömm með því að verðlauna Handke – valið sé siðlaust og ætti að ásækja hana alla tíð. „Sænska akademían tók sér ársfrí til að laga Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Þau eru enn í lamasessi,“ segir Ron Charles bókmenntagagnrýnandi. Ed Vulliamy segir akademíuna hafa traðkað á minningu fórnarlamba þjóðarmorðs. Og Hari Kunzru rithöfundur segir: „Það er mikil þörf á vitsmunafólki sem getur fært öfluga vörn fyrir mannréttindum á opinberum vettvangi andspænis sinnuleysi og vantrú stjórnmálaleiðtoga. Handke er ekki sú manneskja.“

epa07242520 Newly appointed academy members (L-R) Mats Malm, Jila Mossaed and Eric M. Runesson wait prior to the Swedish Academy's formal gathering at the Old Stock Exchange building in Stockholm, Sweden, 20 December 2018. The Svenska Akademien is a science academy with the mission to promote the Swedish language and literature, and is tasked with awarding the Nobel Prize for Literature every year. The academy has recently come under criticism over a sexual abuse scandal.  EPA-EFE/HENRIK MONTGOMERY SWEDEN OUT
 Mynd: EPA
Mats Malm (lengst til vinstri) og Eric M. Runesson (lengst til hægri), í sænsku akademíunni, segja gagnrýnina vera byggða á misskilningi.

Félagar í sænsku akademíunni hafa brugðist við mótmælunum í viðtali við sænska dagblaðið Dagens Nyheter. Viðbrögðin koma Mats Malm, ritara hennar, á óvart. Hann segir að viðbrögðin stemmi ekki við þá mynd sem akademían hefur af höfundinum og kringumstæðum.

Eric M. Runesson, lögfræðingur og nýr félagi í akademíunni, segir að hann hafi stuðst við rannsóknir austurrískra fræðimanna um Peter Handke, þeirra Kurt Gritsch og Karoline Von Oppen, við valið. Runesson segir að skrif þeirra um Handke teikni upp heillegri mynd af höfundinum og að gagnrýnin sem hann hafi orðið fyrir í gegnum tíðina sé ekki að öllu byggð á staðreyndum og jafnvel reist á misskilningi. Hann vonast til að hægt sé að eiga skynsamlega umræðu um málið sem byggist á því hvað Peter Handke vill í raun og veru meina, „en það er líklega til of mikils ætlast. Ég trúi á rökhugsun og er á því máli að hún eigi að verða ofan á.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Handke og Tokarczuk hljóta Nóbelsverðlaun

Bókmenntir

Tvöfaldur Nóbell í bókmenntum

Bókmenntir

Nóbelsakademían í henglum eftir hneykslið

Menningarefni

Er Handke verðugur Ibsen verðlauna?