Níu ný tilvik um kílómetrasvindl ári eftir Procar

12.02.2020 - 19:19
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
FÍB veit af níu tilvikum um kílómetrasvindl síðastliðið ár. Ekkert er tengt bílaleigunni Procar sem varð uppvís að slíku svindli í fyrra. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir að eitt mál hafi verið kært til lögreglu, önnur séu í rannsókn. 

Í dag er ár síðan bílaleigan Procar viðurkenndi að hafa lækkað kílómetrastöðu bíla áður en þeir voru seldir. Það var eftir að Kveikur fjallaði um gögn sem sönnuðu mælasvindlið yfir fimm ára tímabil. Eftir það hafa komið upp níu sambærileg dæmi, ótengd Procar. „Það eru mál sem tengjast öðrum bílaleigum og svo líka mál á milli einstaklinga á markaði. Þau mál eru í ákveðnu ferli núna, sem sýnir okkur alvarleika málsins,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.

Eitt málanna níu kært til lögreglu

„Eitthvað af þessum málum hafa farið í riftun. Eitt málið hefur verið kært til lögreglu. Önnur eru í rannsókn,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.

Þessi tilvik hafa uppgötvast í þjónustuskoðun eða í miðlægum gagnagrunni framleiðanda. „Við höfum tilvik sem tengjast öðrum bílaleigum. Það er ekki svona stórfellt eins og hjá Procar. Við skulum vona að Procar málið hafi haft ákveðinn fælingarmátt í för með sér.“

130 tilvik til rannsóknar hjá Héraðssaksóknara

Forsvarsfólk Procar bauð þeim bætur sem voru blekktir, óháð því hvort eigandi hefði sett sig í samband við bílaleiguna eða ekki. Lögmaður þeirra vildi ekki gefa upp fjölda þeirra sem höfðu þegið bætur eða hver heildarupphæðin var. Procar hafi komið á fót vefviðmóti þar sem hægt er að sjá hvort átt hefur verið við akstursmæli bíla sem hafi verið í eigu Procar.

Eftir að málið kom upp víusðu Samtök ferðaþjónustunnar fyrirtækinu úr samtökunum. Í kjölfar umfjöllunarinnar hóf lögregla og Samgöngustofa rannsókn á málinu. Samgöngustofa taldi sig ekki geta svipt bílaleiguna starfsleyfi þar sem hún hafi aðeins valdheimildir gagnvart starfsemi ökutækjaleiga en ekki um endursölu ökutækja á markaði. Vegna umfangs málsins tók héraðssaksóknari málið yfir í lok maí. Þar er það enn til rannsóknar. Héraðssakóknari hefur rúmlega 130 tilvik til rannsóknar vegna Procar málsins, embættið útilokar ekki að þeim fjölgi eftir því sem rannsókninni vindur áfram en héraðssaksóknari ætlar að hafa samband við alla brotaþola.

Hefði viljað sneggri viðbrögð stjórnvalda

Iðnaðarráðherra lagði fram frumvarp um miðjan nóvember sem gefur Samgöngustofu heimild til að sekta bílaleigur sem brjóta lög um allt að tvær milljónir. Atvinnuveganefnd er með frumvarpið til umfjöllunar. „Það eru hlutir sem er hægt að kippa í liðinn með breytingu á regluverki og hugsanlega þarf að breyta lögum, auðvitað væri æskilegt að sjá það komið til framkvæmda. En við hefðum viljað sjá hlutina gerast miklu hraðar,“ segir Runólfur jafnframt.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi