Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Níu íþróttakonur segja frá nauðgun

11.01.2018 - 20:19
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Í reynslusögum úr íþróttaheiminum er að finna frásagnir í það minnsta níu kvenna sem var nauðgað í tengslum við íþróttaiðkun þeirra. Þar er líka að finna frásagnir af tilraunum til nauðgana, grófri kynferðislegri áreitni, mismunun og niðurlægjandi framkomu í þeirra garð. „Mér finnst þetta bara skelfilegt,“ segir Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Undirskriftalisti og frásagnir núverandi og fyrrverandi íþróttakvenna eru nýjasti kaflinn í frásögnum kvenna af kynbundnu ofbeldi, kynferðislegri áreitni og mismunun sem þær hafa orðið fyrir. Í frásögnunum úr íþróttaheiminum er að finna mun fleiri mjög gróf brot en í frásögnum kvenna úr öðrum greinum. Gerendurnir eru þjálfarar, stjórnarmenn og karlkyns iðkendur. 

Frásagnirnar bregða upp mynd af veröld þar sem brotið er gegn konum og stúlkum með margvíslegum hætti, allt niður í ungar stúlkur.

Þjálfarar og frammámenn meðal nauðgara

Fyrstu tvær frásagnirnar á lista íþróttakvennanna eru af þjálfurum sem nauðguðu konum sem þeir þjálfuðu. Fyrsta konan segir frá því að hún hafi átt erfitt eftir nauðgunina og grennst töluvert. Aðstoðarlandsliðsþjálfari sem hún sagði frá þessu hafi sagt henni að líta á björtu hliðarnar, eftir nauðgunina væri hún orðin svo grönn. Næsta kona segir frá þjálfara sem nauðgaði henni nóttina eftir að hún fagnaði sigri á stærsta móti sínu. Síðar flýði hún bæjarfélag sitt til að losna frá manninum.

Áður en yfir er staðið, á 62. reynslusögu, eru frásagnir kvenna sem var nauðgað í tengslum við íþróttaiðkun orðnar níu talsins. Sú síðasta er af manni, sem gegnir valdastöðu innan félags, sem nauðgaði íþróttakonu. Hún lýsir því hvernig hún fraus og lá varnarlaus undir honum. Hann sinnti mótmælum hennar í engu. „Ég fékk þá að heyra hvað það væri kynþokkafullt að sjá mig sem fórnarlamb því þannig væri ég ekki á æfingum eða í keppni.“

Óverjanlegt

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, sagði í kvöldfréttum RÚV, að frásagnir kvenna í íþróttum væru eitthvað sem sambandið þyrfti að skoða. Hún sagði að íþróttahreyfingin hefði búið til fræðsluefni fyrir aðildarfélög sín og iðkendur, hún sagði að síðustu daga og vikur hefði verið unnið að endurskoðun þeirra.

Það er ekki hægt að verja þetta með neinum hætti, sagði Líney Rut og sagði að sér þætti það skelfilegt sem lýst væri í frásögnunum. Hún sagði að tekið hefði verið á málum sem þessum í íþróttahreyfingunni síðustu ár. „Við viljum þetta ekki.“ Hún sagði að gera þyrfti allt sem hægt væri til að uppræta það ofbeldi, áreitni og mismunun sem þarna var lýst.

Mynd: Skjáskot / RÚV

Nauðgað sextán ára af landsliðsmanni

Konur sem höfðu frumkvæði að og skipulögðu söfnun undirskrifta og reynslusagna ræddu um frásagnirnar í Kastljósi í kvöld.

Hafdís Inga Hinriksdóttir sagði í Kastljósi í kvöld að landsliðsmaður í handbolta hefði nauðgað henni þegar hún var sextán ára gömul. Hún sagðist ekki hafa sagt neinum frá þessu í sautján ár heldur tekið alla ábyrgð og skömm á sig. Hún sagðist ekki hafa áttað sig á valdamisræminu þar sem hún var sextán ára en nauðgarinn næstum áratug eldri en hún, auk þess sem hann var íþróttamaður í fremstu röð sem fólk leit upp til.

Mynd: Skjáskot / RÚV

Anna Soffía Víkingsdóttir sagði að margar ljótar sögur væru í hópnum. „Þegar ég fór að byrja þennan hóp með Hafdísi stóð ég sjálfa mig að því þegar ég var að ganga heim og fór að hugsa um þessa karllægu íþróttamenningu. Ég hugsaði: Vá hvað ég hef verið heppin, ég hef ekki verið beitt ofbeldi.“ Síðan hefði hún áttað sig á því að þetta væri ekki heppni. „Ég hef orðið vitni að miklu ofbeldi, og ég hef fengið að heyra sögur.“

Nína Björnsdóttir byrjaði ung að spila í meistaraflokki í handbolta. Hún segir að á þeim tíma hafi ekki endilega verið hugsað um það þótt fimmtán ára ungmenni mættu í liðspartý þar sem karla- og kvennaliðin voru saman. „Eins og gengur og gerist þegar fólk er undir áhrifum áfengis þá er oft skrýtnum hlutum leyft að gerast.“ Þá fái fólk slaka til að hegða sér illa vegna þess að það sé undir áhrifum áfengis. Þetta hafi tíðkast alveg fram undir það síðasta þegar hún var í handbolta. Hún varð ekki sjálf fyrir ofbeldi en sá og heyrði af ýmsu.