
Til stóð að senda Tony Omos frá Nígeríu úr landi í morgun, en hann er í felum og finnst ekki. Omos kom hingað til lands fyrir rúmum tveimur árum og sótti um hæli sem flóttamaður.
Omos á von á barni með unnustu sinni í janúar. Stefán Karl Kristjánsson, lögmaður Omos, bendir á að Íslendingar hafi lögfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
„Þar er réttur barnsins til samvista við báða foreldra, þannig að það er alveg ljóst að þessi Dyflinnarsamningur og svo lög hér á Íslandi um réttindi barnsins, þau rekast á. Ég hefði nú talið, almennt séð að við ættum að fara mildum höndum um slík mál.“
Stefán Karl hefur heyrt deilt á það að hælisleitandi skuli koma sér í þá stöðu að eiga von á barni á meðan staða hans sé í óvissu.
„Það er ekkert hægt að ætlast til þess að hann setji líf sitt algerlega í pásu í tvö ár. Hann getur lítið unnið fyrir sér, því ekki fær hann leyfi til þess. Hann lifir í rauninni á einhvers konar ölmusugreiðslu sem koma frá yfirvöldum. Vilji hans er að vinna fyrir sér og festa hér rætur, þannig að það er allt í þessu máli sem æpir á að hann sé órétti beittur.“