Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Nígerísku konurnar fórnarlömb mansals

27.11.2012 - 22:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, er sannfærð um að nígerískar konur sem hafa leitað hælis á Íslandi séu fórnarlömb mansals.

Sjö konur frá Nígeríu hafa leitað hælis á Íslandi á þessu ári. Rætt var við tvær flóttakvennanna í Kastljósi í kvöld. Önnur þeirra, 28 ára, er með tveggja mánaða gamalt barn sitt með sér. Hún var send 15 ára í vændi á veitingahús þar sem mörgum stúlkum var haldið nauðugum.

Henni sagðist svo frá að karlar hafi sífellt komið á veitingahúsið. „Svo þegar þeir komu var mér skipað að fylgja þeim og eyða með þeim nótt og peningarnir sem ég fengi hjá þeim ætti ég svo að skila af mér.“

Tugir þúsunda kvenna frá Nígeríu hafa endað sem vændiskonur á götum borga í Evrópu þar sem þær hafa lifað við harðræði félaga í miskunnarlausum glæpaklíkum. Margar hafa horfið sporlaust.

Guðrún Jónsdóttir segir að það sem hafi komið fram í samtölum við konurnar sýni að þær hafi verið seldar og verið fórnað fyrir fjölskyldur sínar eða af glæpamönnum. Þær hafi verið sendar í vændi og komi til Íslands vegna barneigna. „Mér dettur ekki annað í hug,“ segir Guðrún, „en að þarna sé um fórnarlömb mansals að ræða. Málið er bara það að okkur tekst ekki að komast á bakvið yfirborðið, - ná til þeirra sem að gera þær út.“

Fram hefur komið í fréttum að konurnar hafi ekki meiri réttindi en aðrir hælisleitendur, en þegar börn séu með í för sé ákvörðun í málum þeirra einnig tekin með hagsmuni barnanna að leiðarljósi, í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.