Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Niðurstöður PISA „aldrei verið verri“

06.12.2016 - 11:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ísland er undir meðaltali OECD-ríkja í þremur helstu þáttum PISA-könnunarinnar. Færni íslenskra nemenda í tíunda bekk í náttúrufræði, stærðfræði og lestri hefur hrakað frá árinu 2006. Mikið jafnræði er þó milli kynjanna samkvæmt PISA og minni munur er á nemendum eftir félagslegum bakrunni þeirra en er að meðaltali í OECD-ríkjunum. Þá er munur á frammistöðu innflytjenda og þeirra, sem eru fæddir hér á landi, í kringum meðaltal OECD.

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, segir í leiðara við íslensku PISA-könnunina að það valdi áhyggjum að í öllum greinunum, sem mældar eru í PISA-könnuninni, hafi árangur íslenskra nemenda dalað mikið frá því fyrstu mælingar komu fram. „Þetta er mikil breyting á stöðu íslenskra nemenda til hins verra og hefur hún aldrei verið verri í öllum þremur sviðum PISA,“ segir Arnór.

Í könnun PISA kemur fram að læsi íslenskra nemenda í náttúrufræði hafi hrakað mikið á síðastliðnum áratug. Læsi í stærðfræði hefur einnig hrakað stöðugt frá árinu 2003 og lesskilningur minnkaði frá 2000 til 2006 en eftir það hefur hann ekki lækkað marktækt. 

Í samantekt Menntamálastofnunar kemur fram að Ísland sé nú neðst Norðurlanda í lesskilningi og færni nemenda í 10. bekk sé nú svipuð og hjá nemendum í 9. bekk fyrir 15 árum. Fá þátttökuríki hafa lækkað jafnmikið á þessu tímabili.

Svipaða sögu er að segja af stærðfræðilæsi. Nemendur í 10. bekk eru nú með svipaða færni og nemendur í 9. bekk fyrir þrettán árum. Stærðfræðilæsi er nú lakara hér á landi en í meirihluta OECD-ríkjanna og lægra hér en á hinum Norðurlöndunum.

Læsi á náttúruvísindi er nú nokkru minna en það var árið 2006 og það er minna en á öðrum Norðurlöndum. Viðhorf til þessarar námsgreinar eru þó jákvæð í samanburði við nágrannalöndin og hefur staða Íslands batnað hvað þennan þátt varðar milli áranna 2006 og 2015.  Nemendur telja þó að kennsla í náttúrufræði sé frekar hefðbundin, kennarastýrð og lítið sé um tilraunir og rannsóknir.

PISA er alþjóðleg langtímarannsókn á hæfni og getu 15 ára nemenda í lestri, náttúrufræði og stærðfræði. Alls taka yfir 70 þjóðir þátt í rannsókninni, þar af 34 aðildarríki OECD. Á vef PISA-könnunarinnar er hægt að bera niðurstöðurnar á Íslandi saman við önnur lönd. 

Síðasta PISA-könnun, sem gerð var árið 2013, leiddi í ljós að íslenskir nemendur væru hálfu ári á eftir í stærðfræði miðað við sama árgang fyrir tíu árum. Þá gat nær þriðjungur 15 ára pilta ekki lesið sér til gagns. Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, sagði að niðurstöður þeirrar könnunar væru verulegt áfall.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV