Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Niðurstaða Minjastofnunar mikil vonbrigði

17.08.2018 - 09:52
Mynd með færslu
Eldri mynd af sundhöllinni, sem var tekin áður en húsið var klætt. Mynd: Aðsend mynd
Minjastofnun ætlar ekki að mæla með því að Sundhöllin í Keflavík verði friðuð. Þessari niðurstöðu komst húsafriðunarnefnd að á þriðjudag. Íbúasamtök gegn niðurrifi Sundhallarinnar hafa óskað eftir fundi með Minjastofnun vegna málsins.

Fréttablaðið greinir frá þessu. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa samþykkt breytingu á deiliskipulagi á lóð sem sundhöllin stendur á, við Framnesveg, og verktakafyrirtæki sem á sundhöllina áformar að rífa hana og byggja fjölbýlishús. Ragnheiður Elín Árnadóttir er í forsvari hollvinasamtaka sundhallarinnar. „Viðbrögðin eru fyrst og fremst auðvitað vonbrigði, mikil vonbrigði. Ég trúi ekki að þetta sé endanleg niðurstaða. Við erum búin að óska eftir fundi með Minjastofnun til að fara yfir þessa niðurstöðu vegna þess að í bréfi sem ég fékk sent, fyrir hönd samtakanna, þá kemur þar skýrt fram að húsafriðunarnefnd er sammála niðurstöðu Hjörleifs Stefánssonar sem gerði óháð varðveislumat um að sundhöllin hafi hátt menningarsögulegt gildi fyrir samfélagið í Keflavík,“ segir hún. 

Minjastofnun fól Hjörleifi, sem er arkitekt, að leggja mat á varðveislugildi sundhallarinnar. Í skýrslu hans frá 5. júlí sagði að með hliðsjón af byggingarlist hússins og menningarsögu þess og þrátt fyrir takmarkað umhverfisgildi og slakt tæknilegt ástand hafi það hátt varðveislugildi.

Telur ósamræmi í umsögn og niðurstöðu

Í bréfi Minjastofnunar til íbúasamtakanna, þar sem þeim er tilkynnt niðurstaðan, segir að Húsafriðunarnefnd telji að hvorki sé vilji né áhugi hjá bæjaryfirvöldum og eiganda hússins til að stuðla að varðveislu þess. Þá lýsti húsafriðunarnefnd miklum vonbrigðum með framgöngu Reykjanesbæjar. Ragnheiður Elín telur því að ósamræmi sé í umsögn nefndarinnar og niðurstöðu málsins.

Húsafriðunarnefnd nefnir í bókun sinni um málið að önnur sveitarfélög, svo sem Akranes og Seyðisfjörður, hafi sýnt metnað til að tryggja varðveislu sambærilegra sundlaugarmannvirkja. Minjastofnun telur að forsenda þess að friða húsið sé að því verði fundið verðugt hlutverk. Sundlauginni var lokað árið 2006 og um tíma var þar starfsemi Hnefaleikafélags Reykjaness. Minjastofnun segir í bréfinu til hollvinasamtakanna að mikill áhugi hafi verið á varðveislu hússins og að stofnunin hafi ítrekað hvatt sveitarfélagið til að eiga frumkvæði að því að finna lausn sem fæli í sér möguleika á varðveislu. „Nú virðist fullreynt að hvorki sé vilji né áhugi hjá sveitarfélaginu eða eiganda hússins að gera nokkuð sem stuðlað gæti að varðveislu þess. Sú eindregna afstaða veldur því að enginn flötur virðist á lausn málsins sem almenn sátt geti orðið um,“ segir í bréfinu.

Ætla ekki að gefast upp

Ragnheiður Elín segir að hollvinasamtökin ætli þó ekki að gefast upp. Þau kærðu fyrr í þessum mánuði úrskurð Skipulagsstofnunar um breytingu á skipulagi á svæðinu. Hún bendir á að íbúasamtökin hafi ekki digra sjóði til að greiða lögfræðikostnað en þau séu þó að skoða alla möguleika í stöðunni.

Guðjón Samúelsson og Bárður Ísleifsson hjá Húsameistara ríkisins teiknuðu sundhöllina. Framkvæmdir við sundlaugina sjálfa hófust árið 1937. Fyrstu árin var hún útisundlaug. Sundhöllin var svo byggð árið 1945.