Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Niðurskurðurinn „hænuskref fram á við“

13.12.2018 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Ingi Garðarsson  - RÚV
Óvissa ríkir um áhrif tíðinda dagsins á ferðaþjónustuna. Hagfræðingar telja ólíklegt að ferðamönnum fækki mikið og vilja ekki draga upp mjög neikvæðar sviðsmyndir. Það gæti þó orðið samdráttur í ferðaþjónustu.

 

Sætaframboð kann að dragast saman um meira en helming

Wow hyggst fækka vélum um 45% en sætaframboð kann að dragast enn meira saman því á meðal vélanna sem félagið hyggst losa sig við eru breiðþotur sem taka mjög marga farþega. WOW hefur undanfarið flutt um fjórðung allra ferðamanna til landsins.

Gæti myndast gat

Hvað felur niðurskurðaraðgerð félagsins í sér fyrir hagkerfið og almenning? „Ja ef það mun ekki kalla fram nein viðbrögð annarra flugfélaga þá erum við að horfa fram á að það gæti orðið töluverður samdráttur í flugframboði hingað til lands,“ segir Elvar Ingi Möller, sérfræðingur í greiningardeild Arion banka

Það velti mikið á því hver viðbrögð Icelandair og annarra flugfélaga sem fljúga til landsins verði. „Hvort að þau sjái tækifæri í að viðhalda einhverjum áfangastöðum sem WOW air hættir óhjákvæmilega að fljúga til.“

Brúar Icelandair bilið? 

Óljóst er hvort önnur flugfélög reyna að brúa bilið og hvort þau telja þær leiðir sem WOW hyggst hætta með arðbærar en á hluthafafundi Icelandair, sem fór fram í lok nóvember, kom fram að félagið gæti vaxið hratt og mætt framboðsskorti strax næsta sumar færi WOW eða annað stórt flugfélag á hausinn. Því sé ólíklegt að ferðamönnum fækki. Nú er WOW ekki gjaldþrota, staðan er önnur. Telur Elvar að Icelandair bregðist samt við? „VIð erum kannski að sjá fram á svona léttvægari útgáfu af þessu og þar af leiðandi er meiri óvissa um það hver nákvæmlega viðbrögð Icelandair verða í framhaldinu.“ 

Margt eftir að koma í ljós

Í sviðsmynd stjórnvalda frá í haust um áhrif þess á hagkerfið, færi WOW í þrot, var áætlað að það yrði tíu prósent varanlegur samdráttur í heildarútflutningi, gengi krónunnar myndi lækka um ríflega 13% og kaupmáttur skerðast um ríflega þrjú prósent á næsta ári. Hvort í dag átti sér stað einhvers konar hálfþrot treysta sérfræðingar sér ekki til að segja til um. Þá er kannski bót í máli að það er vetur og ekki háannatími.

„Það á margt eftir að koma í ljós, hvort af kaupunum verður, hvaða leiðir fara út, hversu margar vélar verða nýttar, í hvaða leggi, hversu mikið. Það eru enn samningaviðræður í gangi við alla aðila, Indigo Partners, skuldabréfaeigendur og þá sem fjármagna vélarnar, en kannski er núna komið eitt staðfest hænuskref fram á við, að þetta sé að fara að ganga. Auðvitað er leiðinlegt að það séu uppsagnir en þetta er kannski bara angi af því að ferðamannaiðnaðurinn hefur vaxið hratt og þarf að ná einhverri lendingu,“ segir Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans. 

Gæti farið svo að WOW þurfi að segja upp fleira fólki eða fækka vélum frekar?  „Það er ómögulegt að segja til um það.“

Hófstilltur vöxtur eða samdráttur

Greiningardeildir hafa spáð hófstilltum vexti í ferðaþjónustu á næsta ári. „Þessi breyting er til þess fallin að það eru orðnar meiri líkur en minni á að við sjáum einhverja fækkun í komum hingað til lands á næsta ári. Það veltur eins og ég segi á viðbrögðum annarra flugfélaga ef það verða engin viðbrögð erum við að horfa á töluverðan samdrátt,“segir Elvar.

Erum við þá að horfa á mikinn samdrátt, mikla veikingu krónunnar, atvinnuleysi? 

„Það er mjög erfitt að segja til um þessa áhrifaþætti, það hefur verið talað um að Wow air sé að flytja hingað til lands um 650 þúsund ferðamenn á árinu, rúmlega 300 þúsund ferðamenn gætu verið að detta út,“ Segir Elvar 

Það eigi eftir að koma í ljós hvort lág fargjöld hafi verið ráðandi þáttur í því að fá fólk til Íslands en bendir á að veiking krónu og lækkun eldsneytisverð síðustu vikur sé ferðaþjónustunni hagfelld. 

Um helmingur farþega WOW og Icelandair telst til svokallaðra skiptifarþega sem millilenda bara og ferðast ekki um Ísland. Það skiptir máli upp á hugsanlega fækkun ferðamanna til hvors hópsins leiðirnar sem leggjast af hjá WOW taka. Það gæti orðið samdráttur eða minni vöxtur, en hann var 6% á þessu ári. 

„Þessar vélar hjá Wow gætu hugsanlega þýtt á grófu bili fimm til fimmtán prósenta fækkun en maður veit það ekki. Það er ekki hægt að sjá í kortunum að það sé einhver gríðarleg fækkun, ekki út frá þessum upplýsingum,“ segir Sveinn. 

Markaðurinn ráði

Sveinn segir markaðinn ráða því hvort önnur félög fylla upp í tómið hjá Wow. „Í rauninni þarf markaðurinn að leysa þetta, eins og við höfum oft sagt ef Ísland er góður, arðbær ferðamannastaður og eftirspurn mikil mun einhver koma og sækja það.“