Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Niðurgreiðsla á innanlandsflugi hefst í haust

31.01.2020 - 06:39
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Stefnt er að því að niðurgreiðsla ríkisins á innanlandsflugi hefjist 1. september á þessu ári. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Þar segir að Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hafi falið verkefnahópi að útfæra framkvæmd greiðsluþátttökunnar.

Markmiðið er sagt vera að styðja við landsbyggðina og bæta aðgengi landsmanna að miðlægri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. 

Samkvæmt áætlun verkefnahópsins nær greiðsluþátttakan til allra íbúa sem eiga lögheimili í minnst 270 kílómetra fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, eða svæða þar sem sérstakar aðstæður kalla á slíka þátttöku. Þátttaka ríkisins takmarkast við ferðir sem farnar eru í einkaerindum á eigin kostnað umsækjanda. Miðað verður við ákveðinn fjölda ferða á mann á ári og hámarkskostnað á ferð. 

Þrjár ferðir á ári

Á vef Stjórnarráðsins segir að gert sé ráð fyrir 40% greiðsluþátttöku ríkisins. Frá og með 1. september og til ársloka í ár verður hægt að nýta niðurgreiðsluna í eina ferð fram og til baka. Frá og með 1. janúar á næsta ári miðar greiðsluþátttaka ríkisins við þrjár ferðir fram og til baka árlega. 

Meðal verkefna hópsins verður að gera tillögur að nauðsynlegum breytingum á bókunarkerfum flugrekenda, setja upp verklag um endurgreiðslu til flugrekenda og greiðslukerfi, og verklag um endurskoðun og eftirlit með að greiðslur séu samkvæmt reglum. Í verkefnahópnum eru fulltrúar Vegagerðarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og þriggja flugfélaga í innanlandsflugi.