Niðurfærsluskýrslan rædd á Alþingi í dag

21.02.2017 - 09:14
Mynd: RÚV / RÚV
Alþingi kemur saman í dag. Á dagskrá er meðal annars umræða um tvær skýrslur sem forsætisráðherra birti á nýju ári, skýrsla um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og skýrsla um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána.

Þeir tekjuhærri fengu mest

Málshefjandi um niðurfærsluskýrsluna er Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Hún segir að skýrslurnar hefðu átt að birtast mun fyrr. Katrín Jakobsdóttir sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 að umræðan um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána í dag snúist fyrst og fremst um inntak málsins þ.e.a.s. hvaða áhrif þessi aðgerð sem ráðist var í hafi á húsnæðismarkaðinn og hverning hún skiptist á milli fólks. Þetta hafi verið stærsta pólitíska mál síðasta kjörtímabils. 

„Það voru fyrst og fremst hinir tekjuhærri og eldri sem fengu út úr þessari aðgerð. Þeir skulduðu mest og áttu mest. Þá má spyrja sig hvort þetta var rétta aðgerðin til að ráðast í þegar við sjáum að vandinn á húsnæðismarkaði snýst kannski fyrst og fremst annars vegar um að það sé nægjanlegt framboð og hins vegar að ungt fólk komist inn á þennan markað" segir Katrín. 

Hluti af okkar sameiginlegu sjóðum

„Ég held að fólk sé ekki búið að átta sig á því hvernig þessi aðgerð myndi skiptast á milli annars vegar aldurshópa og hins vegar tekjuhópa og eignahópa. Það er auðvitað sláandi að þetta er innheimt í gegnum bankaskattinn, sem er bara venjuleg skattheimta. Þetta er bara hluti af okkar sameiginlegu sjóðum. Við sjáum að það eru 56 ára og eldri sem fá 26,4 milljarða króna af þessum 72 og tekjuhæstu hóparnir, tekjuhæsta tíundin, fær 30% af þessari upphæð, sem er auðvitað hluti af okkar sameiginlegu sjóðum."

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi