Neytendastofu „brugðið“ eftir Brúneggjaþátt

29.11.2016 - 10:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Neytendastofa hefur ákveðið að skoða merkingar og markaðssetningu fyrirtækisins Brúneggja sem var til umfjöllunar í Kastljósi í gærkvöld. „Fyrirtækið fær síðan tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum við því sem kann að koma út úr þeirri skoðun,“ segir Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri á neytendaréttarsviði Neytendastofu.

Fram kom í Kastljósi að starfsfólk hefði um árabil talið að Brúnegg blekkti neytendur með sölu á vistvænum eggjum fyrirtækisins. Eggin voru seld á tæplega 40% hærra verði en venjuleg búrhænuegg, enda merkt sem vistvæn landbúnaðarafurð. 

Í þættinum kom einnig fram að Kastljós hefði látið Neytendastofu kanna hvort þangað hefðu borist ábendingar um mál Brúneggja en ekkert hefði fundist.   „Eftir á að hyggja þá hefði það kannski verið bara góð lausn til þess að fá umfjöllun um málið, vegna þess að við höfðum allan tímann áhyggjur af því að það væri verið að blekkja neytendur og vorum að reyna að vísa málinu í réttan farveg, til þeirra sem höfðu þessa eftirlitsskyldu, til ráðuneytisins sem fór með yfirstjórn mála,“ sagði Jón Gíslason forstjóri Matvælastofnunar í Kastljósi í gær.

Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri hjá Neytendastofu, segir í samtali við fréttastofu að stofnunin ætli nú að kanna bæði merkingar á vörum Brúneggja og markaðssetningu fyrirtækisins.  Það fái síðan tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum við það sem kann að koma út úr skoðun Neytendastofu. 

Þórunn segir að starfsfólki Neytendastofu hafi verið brugðið eftir umfjöllun Kastljóss í gær. Og undrast að stofnuninni skyldi ekki berast nein ábending um málið.  „Við treystum á ábendingar frá almenningi og stofnunum. Í þessu tilviki hafði almenningur engar forsendur til að láta okkur vita,“ segir Þórunn.

Hún segir að ráðuneytið hafa haft samband fyrir helgi og upplýst Neytendastofu um að reglugerð um vistvæna landbúnaðarframleiðslu hafi verið felld úr gildi. Það gerðist fyrir ári síðan en í tilkynningu frá ráðuneytinu kom fram að ástæðan væri sú að ekki hefði verið reglubundið eftirlit með þeim sem fengið hefðu vistvæna vottun. Engar athugasemdir voru gerðar við þá ákvörðun þegar ráðuneytið auglýsti hana tveimur mánuðum áður.

Mynd: Matvælastofnun / Matvælastofnun
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi