Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Neytendasamtökin án formanns næsta árið

09.08.2017 - 06:27
Stefán Hrafn Jónsson, talsmaður stjórnar Neytendasamtakanna.
 Mynd: RUV - RÚV
Neytendasamtökin verða að öllum líkindum án formanns þar til næsta haust. Samkvæmt lögum félagsins er ekki gert ráð fyrir kjöri fyrr en þá. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

Ólafur Arnarson var kjörinn formaður í október í fyrra en sagði af sér formennsku í samtökunum 10. júlí síðastliðinn eftir að hafa sinnt embættinu í nokkra mánuði. Stjórn samtakanna hafði lýst yfir vantrausti á hann og vikið úr starfi framkvæmdastjóra. Í Fréttablaðinu er haft eftir Stefáni Hrafni Jónssyni, varaformanni Neytendasamtakanna, að í lögum samtakanna sé ekki gert ráð fyrir slíkum frávikum, að formaður fari frá. Því þurfi stjórnin að heyra í lögfróðu fólki um það hvernig hægt verði að leysa málið.

Samtökin eiga við fjárhagsvanda að etja og hluti af aðhaldsaðgerðum er að hafa ekki formann á launum, segir Stefán Hrafn. Félagsmenn hafa verið boðaðir á fund þann 17. ágúst næstkomandi þar sem farið verður yfir málin.