Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Neytendasamtökin ætla í „björgunaraðgerðir“

09.07.2017 - 15:28
Stefán Hrafn Jónsson, talsmaður stjórnar Neytendasamtakanna.
 Mynd: RUV - RÚV
„Undanfarið hefur farið of mikil orka í að ná lendingu milli stjórnar og formanns. Það samkomulag hefur ekki náðst. Nú ákváðum við að beina orkunni annað og með þessum aðgerðum teljum við okkur betur í stakk búin til að fara í björgunaraðgerðir til að bjarga samtökunum,“ segir Stefán Hrafn Jónsson, varaformaður Neytendasamtakanna, í samtali við fréttastofu. Vísar hann í aðgerðir til að takmarka aðgang formanns að daglegum rekstri samtakanna, sem tilkynnt var um í dag.

Eins og fram hefur komið hefur öllu starfsfólki verið sagt upp og hefur stjórn samtakanna skorað á Ólaf Arnarson, formann þeirra, til að stíga til hliðar. „Þessi staða er að mestu leyti tilkomin vegns óhóflegra útgjalda sem formaður samtakanna, Ólafur Arnarson, hefur efnt til án aðkomu stjórnar,“ segir í tilkynningu stjórnar í dag.

Aðgerðirnar sem nefndar eru felist einna helst í því að Ólafur vinnur ekki upp uppsagnarfrest sinn sem starfsmaður hjá samtökunum. Hann verður þess í stað á launum þangað til ráðningarsamningur hans rennur út en hefur ekki aðgang að skrifstofu samtakanna eins og aðrir starfsmenn.

Þá hafi þegar verið gripið til aðgerða til að draga úr útgjöldum. „Nú eru aðrir í stjórn og starfsfólkið að reyna að vinna saman að því að bjarga samtökunum.“ Sem dæmi nefnir Stefán að samtökin eru ekki lengur með stjórnarformann á launum, rekstri á bíl samtakanna hefur verið sagt upp. Þá munu samtökin hætta að greiða fyrir smáforritið Neytandinn síðar í sumar, sem var að sögn Stefáns eitt af helstu kosningamálum formannsins.

Takmörkuð áhrif formanns

„Ef þú rennir yfir lög samtakanna segir ekki mikið um hvað formaður á að gera annað en að boða til stjórnarfunda og ráða starfsfólk. Það er ekki kveðið á um starfshlutfall eða laun. Slíkt eru ákvarðanir stjórnar. Sömuleiðis er mjög erfitt að vinna sem stjórnarformaður ef maður hefur ekki stjórnina með sér, vegna þess að þar gildir meirihluti,“ segir Stefán. Þannig fylgi formannstitlinum takmörkuð áhrif.

Formaður er kjörinn af þingi Neytendasamtakanna. Rúmt ár er í að næsta þing verði haldið en boðað hefur verið til félagsfundar í ágúst. „Félagsmenn sem hafa staðið samtökunum að baki árum saman eiga rétt á því að heyra hvað gengur á í stjórn samtakanna öðruvísi en í gegnum fjölmiðla,“ segir Stefán.