Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Neyðist til að búa í húsbíl á Akureyri

16.05.2017 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd: Carolien Coenen - Flickr
Biðtími eftir félagslegri íbúð á Akureyri getur verið um fjögur ár. Engin sértæk búsetuúrræði fyrir heimilislausa eru í bænum þrátt fyrir að þörf sé fyrir hendi. Kona sem neyðist til að búa í húsbíl á Akureyri vegna fjárhagsstöðu segist orðin þreytt á ástandinu.

Um 170 manns á biðlista

Ekki eru til nákvæmar tölur um fjölda heimilislausra á Akureyri. Þó er vitað um nokkurn fjölda fólks sem býr í ófullnægjandi húsnæði. Velferðarráð Akureyrbæjar hefur vakið athygli á að þörf sé á sértækum búsetuúrræðum fyrir heimilislausa. „Það eru bara úrræði sem við höfum verið að skoða. Þetta gengur í svona ákveðnum bylgjum og þá er spurning hversu mikla fjárfestingu á að fara út í fyrir tiltölulega lítinn hóp eða hvort við getum fundið þá önnur úrræði,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri. 

Hjá Akureyrarbæ hefur stefnan verið sú að aðstoða heimilislaust fólk sérstaklega í gegnum félagslega leiguíbúðakerfið. Hins vegar eru um 170 manns á biðlista eftir slíku húsnæði og er biðtími eftir tveggja herbergja íbúð áætlaður um fjögur ár. „Að sjálfsögðu erum við alltaf að reyna að stytta listann eins og við getum, en eins og ég segi, menn sækja líka mikið í sveitarfélögin þar sem þjónustan er góð,“ segir Eiríkur Björn. 

Væri sennilega á götunni

Bergþóra Pálsdóttir hefur búið í húsbíl á Akureyri í tvö ár. Hún er öryrki og hefur ekki efni á leiguíbúð á almennum markaði. „Já ég er búin að vera á biðlista í eitt og hálft ár eftir íbúð. Ég er númer 60 og var númer 64 og það virðist bara ekkert mjakast áfram. Þetta er bara leiðinlegt og skelfilegt, ég er orðin þreytt á þessu,“ segir Bergþóra. Hún segist þakka fyrir að eiga húsbílinn, því annars ætti hún ekki í mörg hús að vernda. „Ég væri sennilega á götunni einhvers staðar,“ segir Bergþóra. 

Ákveðnar reglur gilda um úthlutun félagslegra íbúða á Akureyri og þar eru ákveðnir hópar í forgangi, einkum barnafjölskyldur. „Við erum með fullt af fólki sem við erum að sinna þó að alltaf séu einhverjir sem ekki njóta þeirrar þjónustu eða falla milli skips og bryggju,“ segir Eiríkur Björn.