Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Neyðarástand vofir yfir sóknunum

10.11.2012 - 13:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, gerði niðurskurð á fjárveitingum til kirkjunnar að umtalsefni í setningarræðu sinni á kirkjuþingi í dag. Það stefni í neyðarástand í sumum sóknum og fjárhagsstaðan sé óviðunandi.

„Sóknargjöldin hafa lækkað umtalsvert svo nú stefnir í neyðarástand í sumum sóknum. Fjárhagsstaðan er óviðunandi eins og fram kom í ályktun aukakirkjuþings þann 1. september síðastliðinn. Sóknirnar hafa tekið á sig skerðingu umfram stofnanir innanríkisráðuneytisins, sem nemur 25%. Þetta hefur leitt til fækkunar starfsfólks í sóknunum eins og kunnugt er og álagið á þau er eftir eru er því meira,“ sagði biskup meðal annars í setningarræðu sinni.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í ávarpi sínu á kirkjuþingi að þjóðin hefði á dögunum verið spurð hvort hún vildi áfram hafa kristinn sið og svarið hafi verið afgerandi, þess vegna yrði kirkjan enn um sinn eign þjóðarinnar. Kirkjan yrði að umbera þjóðina og þjóðin yrði að umbera kirkjuna, ekki síður en Veðurstofan yrði að umbera innanríkisráðherra.

„Sums staðar er kristnihaldið einsog var undir Jökli, eilítið sérviskulegt en kærleiksríkt og hjálpar fólki í hinni hversdagslegu önn í gleði og sorg,“ sagði ráðherra meðal annars. „Jón Prímus sagði að almættið væri eins og snjótittlingur sem öll veður hafa snúist gegn. Og þótt kirkjan sé ekki almáttug þá hefur henni kannski stundum liðið einsog snjótittlingi í óveðri.“