
Neyðarástand skapist verði ekkert að gert
Útlendingastofnun hefur nú mál sjö barna sem komu fylgdarlaus hingað til lands til meðferðar. Fjögur þeirra komu á síðasta ári en þrjú í janúar á þessu ári. Tveimur fylgdarlausum börnum sem komu hingað í fyrra var synjað um hæli og þau flutt aftur til heimalands, eitt dró umsókn sína til baka.
Kristín Þyrí Þorsteinsdóttir, félagsþjónustustjóri Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga er þeirrar skoðunar að koma verði á fót móttökustofnun fyrir þessi börn sem allra fyrst, neyðarástand skapist verði ekkert að gert. Fósturkerfið taki ekki endalaust við og henti ekki öllum. Hún tekur þar í sama streng og Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Barnaverndar Reykjavíkur gerði í samtali við Spegilinn í síðustu viku.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, telur ekki þörf á sérstakri móttökustöð fyrir þessi börn. Hann vill ekki íslenskt munaðarleysingjahæli. Hann segir Svíþjóð og Noreg hafa neyðst til að koma á fót móttökustöðvum, vandinn þar sé af allt annarri stærðargráðu en hér. Í fyrra komu 35000 fylgdarlaus börn til Svíþjóðar. Núna í janúar voru þau tæplega 700.
Barnaverndarstofa er tilbúin til þess að taka að sér að hafa umsjón með málaflokknum. Barnaverndarnefnd Sandgerðisbæjar er einnig tilbúin til þess fái hún fjárstuðning.
Hlýða má á viðtal við þau Kristínu og Braga í spilaranum hér fyrir ofan.