
Neyðarástand í Rússlandi vegna gróðurelda
Margir hafa legið stjórnvöldum í Moskvu á hálsi fyrir seinagang og telja að neyðarástandi hefði átt að vera lýst yfir mun fyrr. Eldarnir hafa logað í nokkra daga og nú berst mikill reykjarmökkur yfir borgir og bæi í Síberíu, þar á meðal Novosibirsk þriðju stærstu borg landsins.
Stórir gróðureldar kvikna reglulega í Síberíu en þeir eru mun stærri nú vegna sterkra vinda og mikilla þurrka. Gróðureldurinn sem nú brennur hefur breiðst hratt út þar sem sveitarstjórnir og bæjaryfirvöld hafa úr litlu að moða til að slökkva elda fjarri byggðum. Embættismenn á svæðinu hafa sagt að að kostnaður við slökkviliðsstörf sé oft mun meiri en kostnaður vegna gróðureldanna sjálfra.
Gróðureldarnir vandamál allra Rússa
Rússlandsdeild umhverfisverndarsamtakanna Greenpeace hafa hrundið af stað undirskriftasöfnun þar sem stjórnvöld eru hvött til að grípa til umfangsmikilla aðgerða gegn gróðureldunum án tafar. Um 245 þúsund manns hafa skrifað undir. Samtökin segja gróðureldana löngu hætta að vera svæðisbundin vandamál og hafi afleiðingar fyrir alla íbúa Rússlands, þar sem sót og aska auki hraða bráðnunar sífrerans í Síberíu sem auki losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.
Forsvarsmenn Greenpeace segja að um tólf milljónir hektarar lands hafi brunnið það sem af er ári og þurrkað út skóga sem binda kolefni. Hitastig í Síberíu í síðasta mánuði var næstum tíu stigum hærra en langtímameðaltal júnímánaðar samkvæmt alþjóðlegu veðurfræðisstofnuninni.