Netverjar keppast við að stæla Daða og Gagnamagnið

Mynd með færslu
 Mynd: Daði freyr - Youtube

Netverjar keppast við að stæla Daða og Gagnamagnið

13.03.2020 - 12:18
Eins og flestir vita þá hefur lag Daða Freys fyrir komandi Eurovision flogið hærra en við Íslendingar eigum að venjast með framlög okkar í keppninni. Lagið er á lista Spotify yfir mest spiluðu lögin í heiminum um þessar mundir og netverjar keppast við að reyna sig við lagið, hvort sem er með söng eða dansi.

Dans Daða og Gagnamagnsins hefur vakið sérstaka athygli bæði hérlendis og erlendis. Hér fyrir neðan má sjá nokkur af þeim myndböndum sem birst hafa á netinu undanfarna daga með ólíkum ábreiðum af laginu, Think about things, en jafnramt danshópa taka dansinn sem svo margir reyna nú að læra.

Youtube-arinn Kelarys tók skemmtilega útgáfu af laginu. Hann skrifar undir myndbandið að hann hafi fundið þetta lag og hent öllu öðru sem hann var að vinna að frá sér svo hann gæti tekið upp ábreiðu af laginu. Svo hrifinn af laginu sé hann.

Pabba-danshópurinn Outta Puff Daddys sem kemur frá Brighton í Bretlandi lærði dansinn. Undir myndbandið skrifa pabbarnir „Elskan, við getum ekki beðið eftir því hvað þér finnst um.. þetta.“ Og af viðtökunum að dæma finnst fólki þetta almennt frekar skemmtilegt. 

Charlotte Campbell tók þetta alla leið og endurgerði myndbandið. Hún bjó til sýna eigin peysu, tók dansinn og var með vindvél. Alvöru metnaður í gangi. 

Bítla aðdáandi sem kallar sig TheWalrusWasDanny tók sína útgáfu af Think about things á gítarinn í grófari útgáfu en við eigum að venjast. Þetta er líka skemmtilegt. 

Hér heima er fólk auðvitað hrifið af laginu líka. Þessi íslenski zumba hópur samdi sinn eigin dans við lagið.