Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Nettröllin fleiri á Twitter en áður var talið

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Samfélagsmiðillinn Twitter greindi frá því í dag að mun fleiri notendur tengdir rússneskum stjórnvöldum hafi notað miðilinn til þess að beina færslum að bandarískum kjósendum árið 2016 en áður var talið. Fyrirtækið fann, og lokaði, aðgangi yfir eitt þúsund notenda sem taldir eru eiga rætur sínar að rekja til búgarðs nettrölla í Rússlandi, að sögn Twitter. 

Twitter var ásamt Google og Facebook gagnrýnt harðlega fyrir að leyfa nánast óhefta útbreiðslu falsfrétta fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2016. Þá hafa nettröllin látið til sín taka víðar, til að mynda í aðdraganda Brexit-kosninganna fyrr sama ár. Twitter ætlar nú að senda tölvupóst til nærri 670 þúsund notenda í Bandaríkjunum sem ýmist fylgdu, endurfluttu eða létu sér lynda færslur þeirra sem grunaðir eru um að koma úr nettröllabúgarði rússneskra stjórnvalda. 

Fulltrúar netmiðlanna, Twitter, Facebook og Google, komu fyrir þingnefnd í fyrra. Þar greindu þeir frá því að margar milljónir Bandaríkjamanna hafi fengið falskar fréttir fyrir kosningarnar, margfalt fleiri en áður var talið. Fyrirtækin segjast vera að taka nauðsynleg skrefi til að fjarlægja áróður, villandi upplýsingar og ögranir af miðlum sínum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV