Netgreiðslur Kínverja til Íslands drógust saman um 62%

12.03.2020 - 16:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Kortavelta kínverskra ferðamanna í þjónustuflokkum á netinu hér á landi dróst saman um 62 prósent í síðasta mánuði. COVID-19 kom fyrst upp í Kína í desember og því gætir áhrifanna á ferðaþjónustu fyrst þaðan. Þetta kemur fram í samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Netgreiðslur ferðamanna eru að stærstum hluta greiðslur fyrir ferðir sem á að fara síðar og gefa því vísbendingu um hug ferðamanna til ferðar til Íslands. 

Erlend greiðslukortavelta í heild, án flugsamgangna, dróst saman um 8,5 prósent í febrúar og nam 14,1 milljarði í mánuðinum samanborið við 15,4 milljarða í febrúar í fyrra.

Stærstu flokkar greiðslukortaveltu erlendra ferðamanna eru hótelgisting, ýmis ferðaþjónusta og verslun og var töluverður samdráttur milli ára. Mestu munar um samdrátt í tveimur fyrrnefndu flokkunum. Gistiþjónusta dróst saman um 10 prósent á milli ára og nam 3,2 milljörðum króna í febrúar. Í krónum talið nam lækkunin tæpum 389 milljónum króna. Í flokknum ýmis ferðaþjónusta, sem inniheldur skipulagðar ferðir, nam veltan 2,9 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra nam veltan 3,2 milljörðum og dróst hlutfallslega saman um 11 prósent á milli ára í febrúarmánuði.

Samdráttur í fataverslun ferðamanna 16%

Verslun erlendra ferðamanna með greiðslukortum dróst saman um 5 prósent í febrúar, borið saman við febrúar í fyrra ár og nam 2 milljörðum. Verslun dróst saman í öllum undirflokkum, nema í verslun með gjafa- og minjagripi sem jókst um 6 prósent.

Viðskipti erlendra ferðamanna í dagvöruverslun minnkuðu um 3 prósent í febrúar miðað við sama tíma í fyrra. Samdrátturinn var heldur meiri þegar kemur að fataverslun, eða 16 prósent. 

Samdráttur kortaveltu mestur hjá Bandaríkjamönnum

Í krónum talið var samdráttur kortaveltu í febrúar mestur hjá Bandaríkjamönnum, 805 milljónir króna. Næst mestur var hann í krónum talið hjá Kínverjum, 451 milljón. Samdrátturinn vegna ferðamanna frá Kanada var 146 milljónir króna. Kortavelta jókst aftur á móti frá þýskum ferðamönnum, um 9 prósent, og frá hollenskum ferðamönnum um 20 prósent. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi