Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Netfyrirtæki íhuga að loka á klám

07.09.2012 - 11:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Forráðamenn Símans og Vodafone, sem eru langumsvifamestu netfyrirtækin hér á landi, íhuga nú að loka fyrir klámsíður, fjárhættuspil og fleira varasamt á netinu. Viðskiptavinir geti hins vegar nálgast slíkar síður óski þeir þess.

Nú er þessu öfugt farið. Klám og annað efni sem margir telja óæskilegt flæðir óhindrað um tölvur landsmanna nema þeir óski sérstaklega eftir varnarbúnaði. Mikil umræða er um það í Bretlandi að snúa þessu við. Talsmenn Símans og Vodafone hér á landi segja vel koma til greina að útiloka klám, fjárhættuspil og aðrar síður sem ekki þykja við allra hæfi. Þeir sem kjósi að skoða slíkar síður þurfi þá að opna fyrir þann möguleika. Áður þurfi þó að leysa ýmsan tæknivanda. 

Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone segir að þar hafi menn velt þessu fyrir sér og í því að menn þurfi sérstaklega að opna fyrir efni felist ekki ritskoðun heldur frekar vörn. Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Símans, segir eitt að loka annað að viðskiptavinir og foreldrar hafi meðvitund um að á netinu sé ýmis konar óværa sem þurfi að kenna börnum að varast í samskiptum þar.

Viðtal við Hrannar og Birnu í Morgunúvarpinu.