Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Netanyahu skilaði stjórnarmyndunarumboðinu

22.10.2019 - 01:56
Erlent · Asía · Ísrael · Stjórnmál
epa07939002 (FILE) - Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu attends the swearing in ceremony session of the 22nd Israeli parliament, in Jerusalem, Israeli, 03 October 2019 (reissued 21 October 2019). Netanyahu announced he returns the mandate to form a new government.  EPA-EFE/ATEF SAFADI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur ekkert orðið ágengt með að mynda nýja ríkisstjórn eftir kosningarnar í september síðastliðnum. Hann hefur því skilað stjórnarmyndunarumboðinu. Helsti keppinautur hans, Benny Gantz, fær nú það hlutverk að reyna að mynda starfhæfa ríkisstjórn í landinu.

Netanyahu tilkynnti á mánudag að honum þætti fullreynt með stjórnarmyndunarviðræður og hefði látið forseta landsins, Reuven Rivlin, vita af því.

Framan af stefndi Netanyahu að því að mynda svokallaða einingarstjórn Likud-flokksins og Bláhvíta bandalagsins, flokks Benny Gantz. Þessir flokkar fengu nánast jafnmikið fylgi í kosningunum; Likud 32 þingmenn og Bláhvíta bandalagið 33. Í októberbyrjun lýsti Gantz því yfir að engar forsendur væru fyrir slíku samstarfi og hafnaði því formlega.

Eftir að Netanyahu skilaði umboðinu sagðist Rivli forseti ætla að ræða við leiðtoga allra þingflokka og gefa Gantz tækifæri til að reyna stjórnarmyndun. Fær hann fjórar vikur til þess verkefnis, sagði forsetinn. Sem fyrr segir er Bláhvíta bandalagið með 33 fulltrúa á Ísraelsþingi, þar sem þingmenn eru alls 120 talsins

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV