Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Netanyahu sigurvegari kosninganna

10.04.2019 - 08:20
Erlent · Asía · Ísrael
epa07495361 Israel's Prime Minister Benjamin Netanyahu (R) delivers a victory speech following the election in Tel Aviv, Israel, early 10 April 2019. Television predictions gave both Benjamin Netanyahu's Likud party and Benny Gantz's Blue and White party almost equal amount of Knesset seats in the Israeli general elections. Both candidates have claimed victory.  EPA-EFE/JIM HOLLANDER
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Mynd: EPA-EFE - EPA
Ísraelskir fjölmiðlar segja Benjamin Netanyahu sigurvegara þingkosninganna í Ísrael í gær þótt Likud-flokkur forsætisráðherrans og Blá-hvíti-flokkurinn, flokkur keppinautarins Benny Gantz, fái jafnmörg þingsæti, eins og allt bendir til þegar búið er að telja 97 prósent atkvæða.

Báðir fögnuðu þeir Netanyahu og Gantz sigri eftir að útgönguspár og fyrstu tölur höfðu verið birtar en þegar leið á nóttina var ljóst að Likud og líklegir samstarfsflokkar á hægri vængnum fengju meirihluta þingsæta eða 65 af 120. Líkud-fengi þar af 35 þingsæti, fimm þingsætum fleiri en í síðustu kosningum.

Blá-hvíti-flokkurinn fær jafnmörg þingsæti, en aðrir flokkar mun minna, þeir sem næstir koma átta þingsæti, þannig að Netanyahu hefur pálmann í höndunum. Haft var eftir honum í morgun að hann væri þegar farinn að ræða við hugsanlega samstarfsflokka.

Fréttastofan Reuters hefur eftir Saeb Erekat, aðalsamningamanni Palestínumanna, að Ísraelsmenn hefðu kosið óbreytt ástand. Kosið hernám en hafnað friði.

Þegar búið verður að telja öll atkvæði og úrslit liggja fyrir mun Reuven Rivlin, forseti Ísraels, fá það fram hjá kjörnum flokkum hvern þeir styðji í embætti forsætisráðherra og síðan velja þann sem líklegastur er til að mynda nýja stjórn. Sá fái til þess 28 daga með möguleika á hálfs mánaðar framlengingu á þeim fresti.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV