Netanyahu lofar nýjum landtökubyggðum

Mynd með færslu
Fjölbýlishús reist í landtökubyggð í Austur-Jerúsalem. Mynd: EPA
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, ætlar að reisa 3.500 ný heimili á á viðkvæmu svæði á landtökubyggðum á Vesturbakkanum. Hann sagði í ræðu í gær að framkvæmdirnar tilheyri verkefni sem hafi verið frestað í allt að sjö ár. Al Jazeera fréttastöðin hefur eftir Nabil Abu Rdainah, talsmanni Mahmoud Abbas Palestínuforseta, að Netanyahu fari langt yfir strikið með yfirlýsingu sinni.

Hann kallaði eftir því að alþjóðasamfélagið bregðist við. „Þetta er hættuleg stefna og við teljum þetta verða til þess að leggja friðarviðræður í rúst," sagði Abu Rdainah.

Áform um að reisa landtökubyggðir á svæðinu voru lagðar til hliðar árið 2012 eftir mótmæli Bandaríkjanna, Evrópuríkja og fleiri ríkja heimsins sem töldu verkefnið ógn við friðarviðræður. Palestínumenn segja fyrirhuguðu byggðina eiga eftir að tvístra Vesturbakkanum og loka á leið íbúa að Austur-Jerúsalem.

Netanyahu hefur átt í erfiðleikum með að halda stöðu sinni sem forsætisráðherra. Stjórnarmyndunarviðræður hafa ekkert gengið eftir síðustu tvær kosningar, þar sem flokkur hans hefur tapað fylgi. Hann vonast líklega til þess að fleiri landtökubyggðir eigi eftir að afla honum atkvæða, því í síðustu viku greindi hann frá áformum um byggingu þrjú þúsund annarra heimila á hernumdum svæðum á Vesturbakkanum. 

Stjórnmálin eru ekki eina vandamálið hjá Netanyahu þessi misserin. Í mars verður mál gegn honum tekið fyrir þar sem hann er sakaður um mútur, svik og umboðssvik.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi