Nemendur Kvennó við aðalmeðferð máls Cairo

21.03.2018 - 16:57
Mynd með færslu
Khaled Cairo, í miðjunni á myndinni, á leið í dómssal í Héraðsdómi Reykjavíkur. Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Nokkrir nemendur á lokaári í Kvennaskólanum í Reykjavík fylgdust í dag með skýrslutökum við aðalmeðferð máls Khaled Cairo sem ákærður er fyrir að hafa banað Sanitu Brauna á heimili hennar við Hagamel í Reykjavík í september síðastliðnum.

Mæting á skýrslutökurnar í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag var hluti af valáfanga í lögfræði. Skólameistari segir að allir nemendurnir séu orðnir 18 ára og að þeir hafi sjálfir ráðið þvi hvort þeir myndu mæta eða ekki.

Við skýrslutökuna í dag var rætt við hinn ákærða, réttarmeinafræðing, nágranna, lögreglumenn sem komu fyrstir á vettvang, og önnur vitni. Miklir áverkar voru á Sanitu eftir árásina og við skýrslutökurnar í dag voru sýndar myndir frá krufningu á líki hennar og af áverkum. Þá komu nákvæmar lýsingar fram í máli vitna. Að sögn Hjalta Jóns Sveinssonar, skólameistara Kvennaskólans, fengu nemendur sjálfir að ákveða hvort þeir myndu hlýða á skýrslutökurnar í dag eða ekki. „Kennarinn var búinn að gera þeim grein fyrir að þetta væri alvarlegt og óhugnanlegt mál og að þeim væri frjálst að mæta,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Nemendur í lögfræðiáfanganum heimsækja ár hvert dómstóla og Alþingi og sitja eitt réttarhald ef færi gefst, að sögn Hjalta Jóns. Þinghaldið í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag var opið. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi