Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Neitar hækkaðri álagningu á eldsneyti

20.12.2014 - 20:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Forstjóri N1 hafnar ásökunum um að hafa hækkað álagningu á eldsneyti, á meðan olíuverð í heiminum lækkar. Hvorki Strætó né stærsta leigubílastöðin hafa lækkað fargjöld, þótt eldsneytisverð hafi lækkað.

Olíuverð í heiminum hefur fallið um fjörutíu prósent frá því í júní. Þrátt fyrir það þurfa þeir sem taka strætó ennþá að punga út jafnmiklu og áður. Fargjöld hafa ekkert lækkað en hafa heldur ekki hækkað í tvö ár. Leigubílataxtar hjá Hreyfli og BSR hafa ekki lækkað en þeir voru síðast hækkaðir fyrir mitt ár í fyrra.

Flest stór alþjóðleg flugfélög, þar á meðal Icelandair, kaupa sérstakar varnir, eins konar tryggingar, gegn sveiflum í eldsneytisverði. Það veldur því að áhrif lækkandi olíuverðs á flugfélögin eru minni en ella. Sérstakt eldsneytisgjald hjá Icelandair, sem er hluti af farmiðaverðinu, var lækkað um 15% um mánaðamótin, og ættu lægstu fargjöld að hafa lækkað sem því nemur, samkvæmt upplýsingum frá Icelandair.

Flugfélag Íslands kaupir einnig varnir gegn verðsveiflum. Félagið hefur ekki lækkað verð á fargjöldum en Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir að tilboðssætum hafi verið fjölgað í haust.

Útsöluverð á bensíni hefur lækkað um meira en fimmtung undanfarið. FÍB segir að olíufélögin geti lækkað enn meira, og sakar þau um að auka álagningu. Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, vísar því á bug: „Opinber gjöld vega ríflega helming af bensínverði úti á dælu og yfir þeim höfum við ekkert að segja. Í öðru lagi er bensínið á heimsmarkaðsverði verðlagt í dollurum en við seljum það í krónum og krónan hefur verið að veikjast býsna mikið gagnvart dollar frá miðju ári, þannig að þetta dregur úr þeim áhrifum sem að markaðsverð hefur á verðlagið hérna innanlands.

Í þriðja lagi höldum við birgðir af eldsneyti hér, sem þýðir það að það eldsneyti sem við erum að selja núna, höfum við keypt fyrir nokkrum vikum á hærra verði heldur en heimsmarkaðsverðið er núna.“