Neita Skotum um atkvæðagreiðslu

14.01.2020 - 17:39
epa07747764 Prime Minister Boris Johnson (L) meets with Scotlands First Minister Nicola Sturgeon at Bute House, Edinburgh, 29 July 2019.  EPA-EFE/Stewart Attwood
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Breska stjórnin segir ekki koma til greina að heimila Skotum að efna til atkvæðagreiðslu um sjálfstæði, eins og heimastjórnin hyggst gera. Fyrsti ráðherra stjórnarinnar segir viðbrögðin ekki koma á óvart; Íhaldsflokkurinn sé að neita Skotum um lýðræði.

Stjórnvöld í Lundúnum svöruðu formlega í dag áformum skosku heimastjórnarinnar um að efna til atkvæðagreiðslu um sjálfstæði síðar á árinu. Í bréfi sem Boris Johnson forsætisráðherra sendi Nicolu Sturgeon, fyrsta ráðherra Skotlands, segir að slík atkvæðagreiðsla myndi viðhalda þeirri pólitísku stöðnun sem einkennt hafi stjórnmálalíf í Skotlandi síðastliðinn áratug. Þá minnir hann á að Nicola Sturgeon hafi sjálf lýst því yfir að til slíkrar atkvæðagreiðslu eigi einungis að efna til einu sinni á mannsaldri.

Sturgeon sagði á Twitter að viðbrögð breska forsætisráðherrans kæmu sér ekki á óvart. Breski Íhaldsflokkurinn væri að neita Skotum um lýðræði. Röksemdir Borisar Johnsons væru fyrirsjáanlegar, forgengilegar og með vonleysistóni. Skotar hefðu að sjálfsögðu leyfi til að kjósa um sjálfstæði.

Sturgeon kveðst ætla að kynna næstu skref heimastjórnarinnar í málinu fyrir mánaðamót. Farið verði fram á það við skoska þingið að standa með rétti Skota til að ákveða eigin framtíð.