Neikvæð viðhorf til ESB tíðari hjá RÚV

04.03.2014 - 13:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Í helmingi allra frétta Ríkisútvarpsins um Evrópusambandið birtust hvorki jákvæð né neikvæð viðhorf í garð ESB. Þetta er niðurstaða Creditinfo sem skoðaði nær þúsund fréttir sem birtust á tíu mánaða tímabili. Neikvæð viðhorf í garð ESB voru tíðari í fréttum RÚV en jákvæð.

Fyrrverandi útvarpsstjóri, Páll Magnússon, fékk Creditinfo til að kanna umfjöllun um mál tengd Evrópusambandinu í fréttum allra miðla RÚV á 10 mánaða tímabilinu frá desember 2012 til september 2013. Sérfræðingar Creditinfo beittu aðferðum fjölmiðlagreiningar á 948 fréttir sem fluttar voru í útvarpi, sjónvarpi eða birtust á vefnum ruv.is. Sérfræðingarnir skipta fréttunum í tvo flokka, eftir því hvort þar birtist viðhorf viðmælenda eða hvort fréttirnar eru án viðmælenda. Á þessu tíu mánaða tímabili birtust nærri 900 fréttir með viðmælendum. Í 23 prósentum þeirra frétta birtust jákvæð viðhorf viðmælenda í garð Evrópusambandsins. Í 43 prósentum frétta birtust hvorki jákvæð né neikvæð viðhorf viðmælenda en í nærri 34 rósentum allra frétta birtust neikvæð viðhorf viðmælenda. 17,6 prósent frétta án viðmælenda voru jákvæð, 6,5 prósent neikvæð en nærri 76 hvorki jákvæð né neikvæð.

Magnús Heimisson, stjórnmálafræðingur og annar höfunda skýrslunnar, segir niðurstöðurnar sýna að fleiri neikvæð viðhorf en jákvæð gagnvart ESB hafi birst á tímabilinu. Megin þunginn í umfjölluninni á þessu tímabili hafi snúist um aðildarviðræðurnar við ESB en greiningin nái til umfjöllunar eftir mörgum ólíkum málaflokkum. Hann segir það vekja athygli hve mikið vægi þingmenn og ráðherrar hafi í umræðunni um ESB. Þeir sem oftast var rætt við um Evrópumál í miðlum RÚV á tímabilinu voru, í þessari röð, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Össur Skarphéðinsson, Bjarni Benediktsson og Ólafur Ragnar Grímsson.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi