Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Nefnd leiðréttir falsfréttir um COVID-19

09.03.2020 - 11:21
epa08198020 A woman wears a surgical mask on a sunny day in London, Britain, 06 February 2020. A third case of coronavirus has been diagnosed in UK, the Department of Health has announced. The patient is been transferred to a NHS centre.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA - RÚV
Sett hefur verið saman sérstök nefnd sérfræðinga á vegum breska ríkisins sem ætlað er að leiðrétta rangfærslur og falsfréttir um COVID-19 kórónaveiruna. Greint var frá því í tilkynningu menntamálaráðuneytis Bretlands í dag að reynt verði að fá heildarmynd af því hvert umfang og áhrif moðreyks um veiruna eru.

Nefndinni er ætlað að vinna náið með samfélagsmiðlafyrirtækjum við það að hrekja rangfærslur sem birtar eru um veiruna. Guardian hefur eftir Oliver Dowden, menntamálaráðherra Bretlands, að baráttan gegn falsfréttum sé forgangsverkefni og að því hafi verið sett saman nefnd sérfræðinga til að bregðast við. Facebook og Twitter hafa þegar gripið til aðgerða með því að láta vef bresku heilbrigðisþjónustunnar NHS (e. National Health Service) birtast efst þegar fólk slær orðinu kórónavírus inn í leitarglugga.

Meðal falsfrétta sem hafa farið víða á netinu er að kórónaveiran hafi verið búin til á rannsóknarstofu í ónefndu ríki á Vesturlöndum, eða að hún sé efnavopn sem var framleitt í Bandaríkjunum eða annars staðar. Vísindamenn telja hins vegar að upprunann megi rekja til þess að hún smitaðist í fólk í Kína, eftir að það hafði verið nálægt leðurblökum, hreisturdýrum eða öðrum skepnum.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hélt í dag fund með sérfræðingum og neyðarnefnd þar sem rædd voru enn harðari aðgerðir til að bregðast við útbreiðslu COVID-19. Í gær höfðu 278 smit verið staðfest í landinu. Þrír hafa látist úr sjúkdómnum í Bretlandi.