Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Nefnd fjallar um lögheimili Sveinbjargar

Mynd með færslu
 Mynd:
Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur skipað þriggja manna nefnd til að fjalla um kærumál Björgvins E. Vídalín um lögheimilisskráningu Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík.

Björgvin, sem kærði málið til sýslumanns, telur að Sveinbjörg hafi ekki verið kjörgeng í Reykjavík. Hún er með skráð lögheimili í Reykjavík en hefur sagst búa í Kópavogi. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum í Reykjavík má búast við að nefndin ljúki störfum innan tveggja vikna.

Auk kæru Björgvins voru gerðar athugasemdir við að yfirkjörstjórn hafi verið skipuð en ekki kosin eins og kveðið er á um í lögum. Kæra vegna þessa barst sýslumannsembættinu 13. maí og laut að því að ekki hafi verið staðið rétt að vali á fulltrúum í borgarstjórn Reykjavíkur. Í svari sýslumanns við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að þeirri kæru hafi verið vísað frá. Ekki hafi verið lögð fram ný kæra í því máli.