NBA tímabilinu frestað vegna COVID-19

Mynd: AP / AP

NBA tímabilinu frestað vegna COVID-19

12.03.2020 - 01:46
Bandaríska NBA deildin í körfubolta tilkynnti í kvöld að tímabilinu væri frestað ótímabundið eftir að leikmaður í deildinni greindist með COVID-19 veikina. Rudy Gobert, leikmaður Utah Jazz, fékk niðurstöðu úr rannsókn rétt fyrir leik liðsins gegn Oklahoma City Thunder í kvöld. Leikurinn var við það að hefjast þegar fregnirnar bárust, og var honum aflýst. Gobert var sjálfur ekki á staðnum.

Þegar hafði verið gripið til aðgerða fyrir nokkra leiki í deildinni. Til að mynda átti leikur Golden State Warriors og Brooklyn Nets að vera leikinn á bak við luktar dyr annað kvöld. Nú er hins vegar ljóst að sá leikur verður ekki háður á næstunni, frekar en nokkur annar í deildinni.

Gobert gerði sjálfur lítið úr kórónaveirunni á blaðamannafundi eftir leik Utah gegn Toronto Raptors á mánudag. Myndband sem sýnir hann snerta alla hljóðnema á blaðamannafundinum birtist víða á samfélagsmiðlum eftir að í ljós kom hver leikmaðurinn væri.

Tengdar fréttir

Norður Ameríka

Bandaríkin loka á flug frá Evrópu í 30 daga