Nawaz Sharif yfirheyrður vegna Panamaskjalanna

15.06.2017 - 08:30
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Nawaz Sharif, forsætisráðherra Pakistans, kom í dag fyrir nefnd sem rannsakar spillingarmál. Hann á á hættu að verða sviptur embætti vegna Panamaskjalanna svonefndu. Þar er að finna nöfn fólks sem lögmenn panömsku lögmannsstofunnar Mossack Foneska aðstoðuðu við að koma fyrir fé á aflandsreikningum.

Þrjú af fjórum börnum pakistanska forsætisráðherrans eru flækt í málið. Þeirra á meðal er Maryam, dóttir hans, sem sögð er pólitískur arftaki föður síns.

Hæstiréttur Pakistans komst að þeirri niðurstöðu fyrr á þessu ári að sakir á hendur Nawaz Sharif vegna upplýsinga í Panamaskjölunum væru ekki nægar til að svipta hann embætti. Rétturinn fyrirskipaði að stofnuð yrði rannsóknarnefnd til að fara nánar í málið og draga fram alla þætti þess.

Í Panamaskjölunum er að finna nöfn margra auðmanna og valdamanna, sem höfðu komið sér undan því að greiða skatta heimafyrir með því að koma fé fyrir á aflandsreikningum. Þau urðu til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði af sér embætti og boðað var til þingkosninga fyrr en ella.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi